Landspítali sendir hóp lækna og hjúkrunarfræðinga í aðra ferð til Taílands

Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) sendir hóp lækna og hjúkrunarfræðinga í aðra ferð til Taílands til þess að sækja Svía sem slösuðust í náttúruhamförunum þar og aðstandendur þeirra.

Hópur starfsmanna LSH, 12 hjúkrunarfræðingar og 6 læknar, fór í gær til Bankok með flugvél Loftleiða en hún var send þangað eftir að sænsk stjórnvöld þekktust boð íslenskra stjórnvalda þar um. Síðdegis í dag bárust íslenskum stjórnvöldum svo óskir um að flugvélin færi aftur til Taílands að lokinni ferðinni sem nú stendur yfir.

Loftleiðaflugvélin er væntanleg til Stokkhólms annað kvöld en stefnt er að því að hún leggi af stað frá Bangkok um klukkan sex í fyrramálið og að millilent verði í Dubaí.

Áætlað er að leggja aftur af stað til Bangkok frá Stokkhólmi um eða upp úr hádegi á miðvikudag og snúa aftur til Stokkhólms síðdegis nk. föstudag, 7. janúar. Horfur eru á að í þeirri ferð verði að mestu sömu starfsmenn LSH og eru í ferðinni núna, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert