Námsvefur um lífríki í nágrenni íslenskra grunnskóla

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands og Hólaskóli - Háskólinn á Hólum hafa gefið út vef um lífríki í nágrenni íslenskra grunnskóla, að því er segir í tilkynningu frá Kennaraháskólanum. Vefurinn ber heitið Könnum saman lóð og mó og byggir á hátt í 700 skjámyndum sem lýsa vettvangsathugunum barna og unglinga á dæmigerðu þurrlendi við Lautaskóla.

Á vefnum leiða kennararnir Andrés og Drífa hópa barna og unglinga um skólalóð, grundir, holt, móa og skóglendi í nágrenni skólans og börnin rekast á fjölda algengra lífvera og fræðast um þær með ýmsum hætti.

„ Alls koma fyrir um 100 lífverur í efninu og þar koma fyrir ýmis viðfangsefni sem varða umhverfismál, svo sem ofbeit og uppblástur, skógrækt, fuglavernd, sinueldar og fleira. Jafnframt lýsir vefurinn því hvernig kanna má lífríkið með einföldum búnaði og aðferðum sem allir geta tileinkað sér. Vefurinn tekur mið af viðfangsefnum 10 til 12 ára barna í grunnskóla en getur nýst bæði eldri og yngri nemendum,“ segir í tilkynningunni.

Höfundar að vefnum eru Torfi Hjartarson lektor við Kennaraháskóla Íslands, Sólrún Harðardóttir verkefnastjóri við Hólaskóla og Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Nokkrir aðilar veittu styrki til verksins, þar á meðal Rannsóknarsjóður Kennaraháskóla Íslands, Þróunarsjóður grunnskóla og Menntagátt.

Nýi námsvefurinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert