Tveir sendifulltrúar til viðbótar á leið á hamfarasvæðin í Asíu

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands, J. Birna Halldórsdóttir og Robin Bovey, fara til Aceh í Indónesíu á fimmtudaginn til að vinna við dreifingu hjálpargagna og verða þá alls fimm fulltrúar félagsins að störfum vegna flóðanna í Asíu.

Þau Birna og Robin hafa bæði starfað víða fyrir Rauða krossinn og er Robin nýkominn heim frá Darfur í Súdan þar sem hann vann við dreifingu hjálpargagna. Áætlað er að þau verði í tvo mánuði í Aceh með Alþjóða Rauða krossinum. Fjöldi annarra sendifulltrúa eru í viðbragðsstöðu.

Þegar eru þrír sendifulltrúar Rauða kross Íslands á hamfarasvæðunum. Hlér Guðjónsson starfar að almennum hjálparstörfum á Sri Lanka og Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur er að kanna þörf fyrir áfallahjálp í Indónesíu. Hluti af starfi hennar er að hlúa að sjálfboðaliðum Rauða krossins sem starfa við afar erfiðar aðstæður á hamfarasvæðum. Auk þess er Ómar Valdimarsson sendifulltrúi við störf í Jakarta í Indónesíu.

Þúsundir starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða krossins eru að störfum á hamfarasvæðunum og margir hafa aðstoðað fórnarlömb náttúruhamfaranna frá því á fyrsta degi. Starfið hefur einkum beinst að aðhlynningu þeirra sem lifðu af en einnig hafa sjálfboðaliðar safnað saman líkum þeirra sem létu lífið.

Þúsundir tonna af hjálpargögnum hafa verið að berast á hamfarasvæðin frá birgðageymslum víða um heim. Sérhæfðar sveitir á vegum Alþjóða Rauða krossins eru á svæðunum og aðstoða þar við að útvega hreint vatn, koma upp sjúkraskýlum og dreifa margvíslegum hjálpargögnum svo sem segldúkum, matvælum, eldunaráhöldum og öðrum nauðsynjavörum. Í gegnum leitarþjónustu Rauða krossins er reynt að sameina eftirlifendur ástvinum sínum.

Almenningur, stjórnvöld, félagasamtök og fyrirtæki hafa gefið samtals um 65 milljónir króna til söfnunar Rauða krossins vegna hamfaranna. Rúmlega 26 þúsund manns hafa hringt í söfnunarsímann 907 2020 og gefið þannig eitt þúsund krónur til hjálparstarfsins í hvert sinn. Allt fé sem safnast verður notað til að hjálpa fórnarlömbum hamfaranna í Asíu.

Enn er hægt að gefa með því að hringja í 907 2020 eða leggja inn á reikning Rauða kross Íslands, númer 12 hjá Spron á Seltjarnarnesi (1151 26 12, kt. 530269 2649).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert