Verið að skipuleggja sjúkraflugið til Svíþjóðar

Skjöl fyllt út fyrir útlendingaeftirlit Taílands við komuna til Bangkok …
Skjöl fyllt út fyrir útlendingaeftirlit Taílands við komuna til Bangkok í dag. mbl.is/Sverrir

„Nú tekur við sá tími þar sem endanlega verður gengið frá því hvaða sjúklingar það eru sem fara með vélinni,“ segir Steingrímur Ólafsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, sem staddur er í Bangkok í Taílandi ásamt hópi íslenskra lækna og hjúkrunarfólks. Íslensk stjórnvöld sendu flugvél þangað í gær til þess að sækja sænska ferðamenn sem slösuðust í náttúruhamförunum í Suðaustur-Asíu.

„Svíarnir hafa óskað eftir því að klukkan 12 á hádegi á morgun að taílenskum tíma verði lagt af stað héðan,“ segir Steingrímur. Þá verður farið með sjúklingana til Svíþjóðar en millilenda þarf á leiðinni og verður það að öllum líkindum í Dúbaí að sögn Steingríms.

Steingrímur segir að læknarnir muni sennilega ekki hitta sjúklingana í dag. „Það er ekki talið líklegt að þeir hitti þá fyrr en sænskir læknar afhenda þá á flugvellinum í Bangkok í fyrramálið.“

Hann segir að í dag verði ferðin til Svíþjóðar undirbúin nánar. „Það tekur talsverðan tíma að undirbúa flugvélina fyrir komu farþeganna. Það þarf að ganga frá mjög miklu, raða upp lyfjabirgðum, koma rúmunum fyrir og skipuleggja í raun og veru uppsetningu flugvélarinnar. Læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir eru í þeirri vinnu,“ segir Steingrímur. Hann bætir við að núna á eftir fari fram fundur þar sem endanleg verkaskipting verði ákveðin svo hægt verði að ganga beint til verks á morgun.

Tímamunur milli Íslands og Taílands er sjö tímar og þar fer nú senn að kvölda. Steingrímur segir að íslenski hópurinn sé skiljanlega orðinn þreyttur. Menn muni reyna að ná 6 til 8 tíma svefni í nótt áður en lagt verði upp í ferðina á morgun.

Hluti íslenska hópsins við komuna til Bangkok í dag.
Hluti íslenska hópsins við komuna til Bangkok í dag. mbl.is/Sverrir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert