Landssöfnun hafin til hjálpar fólki á hamfarasvæðunum í Asíu

Skipakostur sjómanna á Phuketeyju varð illa úti í hamförunum.
Skipakostur sjómanna á Phuketeyju varð illa úti í hamförunum. mbl.is/Sverrir

Landssöfnun þriggja sjónvarpsstöðva, þriggja verslunarmiðstöðva, níu útvarpsstöðva, þriggja dagblaða, listamanna, fyrirtækja og almennings til hjálpar þeim sem lifðu af hamfarirnar í Asíu hefst í dag en aldrei fyrr hafa svo margir aðilar á Íslandi tekið höndum saman um neyðarhjálp til útlanda.

Söfnunarfénu verður varið til neyðaraðstoðar nú, og uppbyggingar á næstu árum á vegum fimm mannúðarsamtaka; Barnaheilla - Save the Children, Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða kross Íslands, SOS barnaþorpa og UNICEF - Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari söfnunarinnar.

Kjörorð söfnunarinnar er Neyðarhjálp úr norðri. Söfnunin hefst í dag og nær hámarki með sameiginlegri beinni útsendingu Sjónvarpsins, Stöðvar 2 og Skjás eins laugardagskvöldið 15. janúar.

Fram kom á blaðamannafundi í dag, að söfnunarfénu verður varið til að teysta framtíð barna sem misst hafa foreldra sína. Hjálpa fjölskyldum sem misstu allt sitt til að koma undir sig fótunum á ný og veita læknisaðstoð og heilsugæslu og koma í veg fyrir frekari skaða.

Landsmönnum gefst kostur á að hringja í söfnunarsíma alla þessa viku. Framlög eru skuldfærð á símreikning handhafa. Söfnunarsímanúmerin eru:

  • 901 1000 sem gefur 1000 kr.
  • 901 3000 sem gefur 3000 kr.
  • 901 5000 sem gefur 5000 kr.

Á föstudag og laugardag verður skemmtidagskrá í Kringlunni, Smáralind og á Glerártorgi, Akureyri. Hún stendur frá kl. 14-18 á föstudag og 12-18 á laugardag. Þá ganga sjálfboðaliðar um þessa daga og safna í bauka. Á laugardag munu þekktir einstaklingar í samfélaginu sitja við símann frá kl. 14-21:30 og taka við stærri framlögum. Númerið er 755 5000. Fyrirtæki eru hvött til að gefa til söfnunarinnar og verður frumlegustu aðferðanna getið að góðu.

Landsbankinn er vörsluaðili söfnunarfjár og styrktaraðili söfnunarinnar. Féð fer óskert til neyðarhjálpar og uppbyggingar á hamfarasvæðunum í gegnum Barnaheill - Save the Children, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauða kross Íslands, SOS barnaþorp og UNICEF.

Sérstaka heimasíðu söfnunarinnar er að finna á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert