Nýgengi krabbameina meðal kvenna á Íslandi er svipað og í Danmörku og er nýgengi brjóstakrabbameins hátt í báðum löndunum. Einnig er nýgengi lungnakrabbameins hærra á Íslandi og í Danmörku en annars staðar á Norðurlöndunum.
Í svari heilbrigðisráðherra á Alþingi við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur, alþingismanns, segir að þetta megi rekja til meiri reykinga kvenna í þessum tveimur löndum og hvað Ísland varði skipti miklu að á síðustu öld hafi íslenskar konur byrjað fyrr að reykja mikið borið saman við það sem tíðkaðist annars staðar á Norðurlöndum.
Í svarinu kemur fram, að nýgengi krabbameina meðal karla á Íslandi sé svipað og í Noregi og lítið eitt hærra en í Danmörku. Nýgengi blöðruhálskirtilskrabbameins sé heldur hærra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Segir í svarinu að lágt nýgengi blöðruhálskirtilskrabbameins í Danmörku skýrist væntanlega af því að þar séu PSA-mælingar fremur sjaldgæfar, en þær leiði oft til greiningar. Hins vegar sé dánartíðni svipuð alls staðar á Norðurlöndunum.
Fram kemur að svarið byggi á úr NORDCAN-gagnagrunninum sem sé öllum opinn á netinu.