Jökulfellið sökk við Færeyjar í nótt

Jökulfell á siglingu.
Jökulfell á siglingu. mbl.is

M/S Jökulfelli, leiguskipi Samskipa, hvolfdi um 60 sjómílur norðaustur af Færeyjum í gærkvöldi. Enginn Íslendingur var í áhöfn skipsins. Fyrsta neyðarkall barst frá skipinu um kl. 20. Ellefu skipverjar, Rússar og Litháar, voru um borð. Sex var enn saknað er Morgunblaðið fór í prentun og leituðu þeirra fjögur skip og tvær þyrlur. Hafði færeysku Björgunarmiðstöðinni tekist að bjarga fimm skipverjum fyrir miðnætti í nótt. Var þeim bjargað úr sjónum um borð í þyrlu og þaðan fluttir í varðskipið Vædderen, sem var á leið á slysstað ásamt fleiri skipum. Upplýsingafulltrúi Samskipa staðfesti kl. 1.30 í nótt að Jökulfell væri sokkið.

Að sögn Djóna Weihe, stjórnanda Björgunarmiðstöðvarinnar í Þórshöfn, barst stutt neyðarkall um klukkan átta í gærkvöldi og var allt tiltækt lið þegar sent áleiðis að slysstaðnum. Neyðarkallið var sent út með svokölluðum DSC-neyðarhnappi og því komu engar upplýsingar um hvað amaði að. Stuttu síðar heyrðust sendingar frá neyðarbauju sem fer í gang um leið og hún lendir í sjó.

2.000 tonn af stáli um borð

Jökulfellið var á leið frá Liepaja í Lettlandi til Reyðarfjarðar og Reykjavíkur með um 2.000 tonn af stáli innanborðs. Sex metra ölduhæð var á svæðinu, vindur 15 metrar á sekúndu af suðvestan.

"Á þessari stundu er ekkert vitað um ástæður, enda beinist allt að því að bjarga áhöfninni," sagði Anna Guðný Aradóttir, upplýsingafulltrúi Samskipa, í samtali við Morgunblaðið í nótt.

Landhelgisgæslan hefur boðist til að senda TF-SYN, Fokkervél sína, til aðstoðar í birtingu.

M/s Jökulfell er 3.000 tonna frystiskip og getur flutt allt að 140 gáma. Það hét áður Nordland Saga og var smíðað í Danmörku árið 1989. Samskip tóku það í þjónustu sína 5. febrúar í fyrra. Skipið er 87 metra langt og ganghraðinn 13,8 hnútar.

Í frétt á vef Samskipa segir að Jökulfellið sé fimmtánda skipið í reglubundnum siglingum fyrir Samskip og hafi fyrst og fremst verið í ferðum milli Íslands og Eystrasaltslandanna, auk tilfallandi verkefna erlendis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert