Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu forvígismenn ríkisstjórnarinnar harðlega á Alþingi í dag fyrir það hvernig staðið var að ákvörðun um að styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og fleiri þjóða í Írak. Voru stjórnvöld m.a. sökuð um að hafa veitt Bandaríkjunum frjáls afnot af nafni Íslands í pólitísku skyni. Stjórnarliðar hvöttu hins vegar stjórnarandstæðinga til að fara að snúa sér að öðrum málum.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna við upphaf þingfundar eftir hádegið, og sagði að ýmis ummæli og upplýsingar hefðu komið fram að undanförnu um aðdraganda ákvörðunarinnar um stuðning við hernaðaraðgerðirnar í Írak, sem kölluðu á skýringar. Sagði Össur, að stjórnarandstaðan hefði lagt ríka áherslu á að fram fari sérstök rannsókn til að grafast fyrir um aðdraganda þeirrar ákvörðunar sem tveir forustumenn ríkisstjórnarinnar tóku. Því hafi verið haldið fram að þrýstingur frá Bandaríkjamönnum og varnarhagsmunir hafi blandast inn í þetta og í viðtali sem Stöð 2 tók við Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, í gær, hafi þetta verið staðfest.
Sagði Össur að Halldór hefði í viðtalinu sagt að í því hefði falist veruleg stefnubreyting ef hafnað hefði verið ósk um stuðning frá vinaþjóð til 60 ára. Þetta sagði Össur vera rangt hjá Halldóri því Ísland hefði með þessari ákvörðun stutt einhliða og ólögmætt innrásarstríð og ákvörðun um stuðninginn hefði verið tekin án lögformlegs samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis.
Spurði Össur, hvort það væri rétt lýsing, sem höfð hefði verið eftir í viðtalinu við Halldór, að sendiherra Bandaríkjanna hefði komið í forsætisráðuneytið á meðan ríkisstjórnin var á fundi um Íraksmálið. Forsætisráðherra hefði farið fram á gang og rætt við þann embættismann sem við sendiherrann ræddi og komið á ný inn á fundinn án þess að láta þess getið.
Halldór Ásgrímsson sagði, að enn á ný kæmi Össur upp á Alþingi til að vekja á sér athygli og þráspyrja um þetta mál. Hann hefði hins vegar upplýst að hann myndi ekki á hvað hann hlustaði í gærkvöldi. Sagðist Halldór aldrei hafa sagt í viðtalinu, að bein tengsl hefðu verið á milli varnarhagsmuna og umræddrar ákvörðunar, og spurði Össur hvort hann vildi ekki lesa viðtalið áður en hann kæmi næst upp í ræðustól.
Halldór sagði, að svo virtist sem verkaskipting forustu Samfylkingarinnar væri sú, að formaðurinn sæi um fortíðina og varaformaðurinn um framtíðina. Sagðist Halldór hafa verið síðustu daga á ferð úti á landi og sagði að fólkið í landinu hefði engan áhuga á þessu máli og engan áhuga á því sem Össur væri að tala um heldur hefði það áhuga á framtíðinni. Sagðist Halldór síðan vilja biðja þingmanninn að hætta þessari vitleysu.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að þeir Halldór, George W. Bush og Tony Blair ættu það sameiginlegt að vilja ekki tala mikið um þetta mál. Sagði Steingrímur, að vinnubrögðin, sem lýst hefði verið í umræddu viðtali væru svo ófagleg og niðurlægjandi fyrir íslenska þjóð að það væri með ólíkindum. Ákvörðunin hefði verið tekin á hlaupum, skilaboð hefðu borist frammi á gangi í stjórnarráðinu gegnum embættismann frá sendiherranum sem drap þar niður fæti og allt væri samkvæmt minni.
Sagði Steingrímur, að Halldór hefði staðfest, að ekki væri stafkrókur bókaður um málið, um það hefði aldrei verið tekin formleg ákvörðun á fundum, engin formleg tilkynning hefði verið gefin út heldur pukrast með málið að ósk bandarísku ríkisstjórnarinnar. Þá hefði nafn Íslands birst á lista yfir stuðningsþjóðir þegar Bandaríkjamönnum hentaði. „Bandaríkjunum voru gefin frjáls afnot af nafni Íslands. Hvílík niðurlæging fyrir sjálfstæða þjóð," sagði Steingrímur.
Geir H. Haarde, starfandi utanríkisráðherra, sagði að umræðan bæri keim af illvígum innanflokksátökum í Samfylkingunni. Auðvitað lægi fyrir, að rétt hafi verið að málunum staðið, þeir ráðherrar sem til þess voru bærir hefðu tekið umrædda ákvörðun og þeir hefðu haft fullan stuðning á bak við sig í ríkisstjórn og þingflokkum. Að veita yfirflugsréttindi og lendingarleyfi og lýsa yfir stuðningi við uppbyggingu í Írak væri í fullu samræmi við það sem áður hefði verið gert.
Geir sagði, að það væri athyglisvert að stjórnarandstaðan gæti með engum hætti horft fram á veginn til uppbyggingar í Írak en horfði stöðugt í baksýnisspegilinn til 18.-20. mars árið 2003. Þá léti hún eins og samvinna í varnarmálum skipti engu máli. Spurði Geir, hvort það lægi ekki fyrir að samstarf þessara þjóða hefði mikla þýðingu þegar brugðist væri við óskum frá Bandaríkjamönnum.
Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins sagði, að sá sorglegi atburður hefði gerst að forsætisráðherra hefði ítrekað orðið uppvís að því að fara með ósannindi varðandi það að Íslendingar undir leiðsögn Framsóknarflokks og með stuðningi Sjálfstæðisflokks skyldu hafa farið fram með ófrið á hendur öðrum þjóðum. Sagði Sigurjón að Halldór hefði sagði að þetta hefði ekki verið gert með tilliti til varnarhagsmuna en það hefði hann síðan viðurkennt í gær. Þá hefði Halldór haldið því fram, að breytt afstaða Frakka hafi valdið stefnubreytingu íslensku ríkisstjórnarinnar, en nú væri komið í ljós að það væri ekki rétt. Þá hefði forsætisráðherra ítrekað sagt að ákvörðunin hafi verið rædd í þingflokkum, ríkisstjórn og utanríkismálanefnd en nú hefði komið í ljós að ávörðunin var ekki rædd, heldur aðeins Íraksmálið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði að skoðun á fortíðinni væri mikilvæg. Halldór segði að fólkið í landinu ræddi ekki Íraksmálið en svo mikið væri víst, að fólkið í landinu væri andvígt þeirri ákvörðun sem tekin var og teldi hana vera siðferðislega ranga.
Ingibjörg Sólrún sagðist ekki telja að þessi umræða væri árás á forsætisráðherra heldur væri verið að ræða hvernig staðið væri að ákvörðunum sem fælu í sér stefnubreytingu í utanríkismálum. Í því fælist pólitísk gagnrýni og hún ætti að eiga sér stað á Alþingi. Sagði Ingibjörg Sólrún, að einhliða valdbeiting væri í andstöðu við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bush-kenningin svonefnda væri að Bandaríkin hafi ein rétt á að grípa til aðgerða og undir það hefðu íslensk stjórnvöld tekið með því að ljá máls á einhliða árás á fullvalda ríki. Sagði Ingibjörg Sólrún, að í þessu fælist stefnubreyting og rof á þeirri sátt sem verið hefði um utanríkismál á Alþingi í 60 ár.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði það rangt að halda því fram að Íslendingar hafi verið að gerast aðilar að stríði. Bandaríkjamenn hefðu beðið um pólitískan stuðning, sem væri kjarni málsins. Ísland hefði veitt eðlilegan pólitískan stuðning við stríð sem hafði það að markmiði að hrinda einum mesta harðstjóra allra tíma. Sagði Einar að margbúið væri að draga þessi atriði fram og stjórnarandstaðan þyrlaði upp moldviðri um mál, sem löngu væri búið að útskýra, og væri nú í eðlilegri umfjöllun í utanríkismálanefnd þingsins.
Össur Skarphéðinsson sagði að loks væri verið að upplýsa þetta mál og draga með töngum hægt og hægt út úr ríkisstjórninni hvernig í því liggi. Spurði Össur hvers vegna menn væru ekki tilbúnir til að samþykkja að aflétta trúnaði af fundargerðum utanríkismálanefndar og tillögu stjórnarandstöðunnar um að láta rannsaka öll tildrög þessa máls. Þá spurði Össur, hvort það væri ekki óeðlilegt að þegar ríkisstjórnin væri að ræða mál Íraks sé sendiherra Bandaríkjanna handan við þilið. Og forsætisráðherra hefði ekki sagt ríkisstjórninni frá þeirri ákvörðun sem tekin hafði verið. Spurði Össur, hvort skýringin á því hefði verið sú, að einhverjir ráðherrar, t.d. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hefðu ekki verið sammála þessari ákvörðun og einnig hvort fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hafi ekki heldur verið sammála þessu; hvort ríkisstjórnin hafi í raun ekki haft þingmeirihluta fyrir ákvörðuninni.
Halldór Ásgrímsson sagði, að það hefði komið skýrt fram, að umrædd ákvörðun hefði verið tekin eftir ríkisstjórnarfund. Vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar um stefnubreytingu, þá sagði Halldór að það lægi alveg ljóst fyrir, varðandi árásir vestrænna herja á Kosovo-hérað í Júgóslavíu, að öryggisráð SÞ hafi ekki samþykkt þær. Sagðist Halldór ekki muna betur en að Samfylkingin hafi stutt á sínum tíma þegar íslensk stjórnvöld veittu þeim aðgerðum stuðning.
Sagði Halldór að lokum, að ljóst væri að gamla Alþýðubandalagið hefði náð yfirhöndinni í Samfylkingunni í utanríkismálum. Áður hefði verið hægt að treysta því að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur stæðu saman í öryggis- og varnarmálum en það væri allt breytt.