Gagnrýnir að rífa eigi gömul hús við Laugaveg

Samkvæmt nýju deiliskipulagi er heimilað að rífa 25 hús sem byggð voru fyrir 1918 við Laugaveg í Reykjavík. Hefur steinbærinn Laugavegur 22A frá árinu 1892 þegar verið rifinn. Þetta kom fram á fundi borgarráðs í gær þar sem lagt var fram svar sviðsstjóra Skipulagssviðs við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-listans.

Ólafur lét bóka á fundinum í gær, að engum ætti að dyljast, að í uppsiglingu sé allt of mikil röskun á byggingarsögu og heildstæðri götumynd Laugavegarins. Endurskoða þurfi deiliskipulag Laugavegarins á svæðinu frá Laugavegi 1-73 og skoða málið heildstætt. Ekki verði unað við þá niðurstöðu, sem starfshópur um endurskipulagningu Laugavegarins komst að fyrir nokkrum árum, en þar var lagt til mun meira niðurrif gamalla húsa við Laugaveg en áður hafði verið talið verjandi.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í borgarráði létu bóka, að í bókun Ólafs kæmi fram ákveðinn misskilningur. Mikil áhersla hafi verið lögð á það við deiliskipulag Laugavegar að tryggja nauðsynlega uppbyggingu nýs verslunar- og atvinnuhúsnæðis en tryggja í leiðinni að yfirbragð og karakter gömlu húsanna við Laugaveg haldi sér. Til að tryggja nauðsynlega sátt þessara sjónarmiða hafi verið settur á laggirnar vinnuhópur með sérfræðingum minjaverndarinnar, rekstraraðilum á svæðinu, kjörnum fulltrúum og arkitektum frá Skipulagssviði. Sá vinnuhópur hafi skilað niðurstöðum sem skipulagið byggir á.

Segir í bókuninni, að nú sé lokið miklu átaksverkefni varðandi deiliskipulag á Laugavegi sem tryggi nauðsynlegt jafnvægi verndunar og uppbyggingar. Allt tal um annað sé fyrst og fremst til þess fallið að slá ryki í augu fólks.

Fram kemur í svari Skipulagssviðs, að húsin, sem heimilað hefur verið að rífa eru númer 4, 5, 6, 11, 12B, 17, 19, 20, 20A, 21, 22A, 23, 27, 28B, 29, 33, 35, 38, 41, 45, 55, 65, 67, 69 og 73 við Laugaveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert