Bryndís verður deildarforseti lagadeildar á Bifröst

Bryndís Hlöðversdóttir, t.h. á Alþingi ásamt öðrum þingmönnum.
Bryndís Hlöðversdóttir, t.h. á Alþingi ásamt öðrum þingmönnum.

Tilkynnt var á fundi í Viðskiptaháskólanum á Bifröst í dag, að Bryndís Hlöðversdóttir, alþingismaður, verður deildarforseti lagadeildar skólans. Tekur Bryndís við embættinu 1. ágúst af Ingibjörgu Þorsteinsdóttir, sem lætur af störfum að eigin ósk. Bryndís segir af sér þingmennsku og tekur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væntanlega við þingsæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Ákveðið var á stjórnarfundi skólans á fimmtudag að ráða Bryndísi en hún var stundakennari þegar meistaranám í lögfræði hófst í skólanum sl. sumar.

Bryndís sagði við Morgunblaðið, að hún hefði fylgst með starfinu á Bifröst og dáðst að kraftinum sem einkenni það. Hún sagðist hafa verið tilbúin til að hætta þingmennsku þar sem hún hafi ekki viljað láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Sagðist hún hafa starfað sem þingmaður í 10 ár og hugsað sér að láta af því starfi eftir þetta kjörtímabil. Lögfræðin hefði togað í hana, einkum í seinni tíð, og starfið á Bifröst gefi henni tækifæri til að sinna bæði lögfræðinni og stjórnunarstörfum.

Bryndís sagði aðspurð að það hefði engin áhrif haft á ákvörðunina að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fái í kjölfarið fast þingsæti; sagði Bryndís að menn tækju ákvörðun um að víkja úr ábyrgðarstarfi á borð við þingmennsku á eigin forendum en ekki annarra. Samt væri gott að vita að öflugur kandídat komi í staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá skólanum á Bifröst mun Ingibjörg Þorsteinsdóttir núverandi deildarforseti láta af þeirri stöðu frá og með 1. ágúst en hún verður í fæðingarorlofi næsta háskólaár og hyggst í framhaldinu einbeita sér að kennslu og rannsóknum á sviði lögfræði við Viðskiptaháskólann.

Bryndís Hlöðversdóttir er lögfræðingur að mennt, fædd 8. október 1960 á Selfossi. Bryndís var lögfræðingur Alþýðusambands Íslands 1992-1995 en hefur frá þeim tíma verið alþingismaður Reykvíkinga. Hún var formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2001- 2004 og hefur sem alþingismaður setið í menntamálanefnd, félagsmálanefnd, allsherjarnefnd, fjárlaganefnd, umhverfisnefnd, samgöngunefnd og iðnaðarnefnd og í sérnefndum um stjórnarskrárleg málefni. Í nefnd forsætisráðuneytisins um Evrópumálefni frá 2004 og í nefnd um sameiningu sveitarfélaga frá 2004.

Bryndís á tvo tvo syni, Hlöðver Skúla og Magnús Nóa Hákonarsyni, fædda 1997.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka