Nemendur sem ekki neyta áfengis fengu hærri einkunnir

Nemendur Verzlunarskólans sem aldrei eða mjög sjaldan drekka áfengi og þeir sem ekki reykja voru almennt með hærri meðaleinkunn á jólaprófunum. Þetta er niðurstaða könnunar sem birt er í nýútkomnu Verzlunarskólablaði. Könnunin var gerð 11. janúar sl. og lögð fyrir alla nemendur skólans. Af um ellefu hundruð nemendum skólans svöruðu 976, sem er um 90% svarhlutfall.

Þegar áhrif áfengisneyslu á meðaleinkunn jólaprófa eru könnuð kemur í ljós að þeir sem ekki neyta áfengis fengu að meðaltali 7,32 á prófunum, þeir sem drekka sjaldnar en einu sinn í viku fengu 7,16, þeir sem drekka 1-2 sinnum í mánuði fengu 6,77, þeir sem drekka 3-4 sinnum í mánuði 6,63, þeir sem drekka 5-8 sinnum í mánuði 6,6 og þeir sem drekka níu sinnum eða oftar í mánuði fengu að meðaltali 6,42.

67% nemenda reykja ekki

Að meðaltali neyta nemendur skólans áfengis 1,77 sinnum í mánuði. Nokkur munur er á kynjunum því strákar neyta áfengis 1,95 sinnum og stúlkur 1,63 sinnum í mánuði. Enn meiri munur er á árgöngum í skólanum. Þannig segjast þriðjubekkingar drekka 1,36 sinnum í mánuði en sjöttu bekkingar drekka 2,27 sinnum.

Einnig var í könnuninni athugað hversu margir nemendur skólans reykja. Um 13% nemenda segjast reykja að jafnaði og 20% aðeins á djamminu, en alls sögðust 67% nemenda ekki reykja. Þegar tengslin milli einkunna jólaprófa og reykinga eru skoðuð kemur í ljós að þeir sem ekki reykja voru með 7,08 í meðaleinkunn, þeir sem reykja með áfengi fengu 6,7 og þeir sem aðeins reykja fengu 6,38.

Í könnuninni var fíkniefnanotkun nemenda einnig skoðuð. Í ljós kemur að hún hefur dregist töluvert saman milli ára. Þannig höfðu 27,5% nemenda neytt fíkniefna árið 1997, þremur árum síðar var hlutfallið komið niður í 19,8 og nú í ár er hlutfallið 16,7. Rúmlega helmingi fleiri strákar höfðu einhvern tímann prófað fíkniefni eða 24,8% á móti 10,6% hjá stúlkunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert