Sæmundur söng afmælissönginn fyrir Fischer

Vegabréf Bobbys Fischers.
Vegabréf Bobbys Fischers. mbl.is/ESE

Sæmundur Pálsson söng afmælissönginn fyrir Bobby Fischer þegar hann heimsótti hann í útlendingabúðirnar þar sem honum er haldið í dag. Unnusta Fischers, Miyoko Watai, ætlaði að færa honum rósir en fékk það ekki, en verðirnir fundu engin ráð við því þegar Sæmundur hóf upp raust sína og söng afmælissönginn fyrir Fischer, að sögn Garðars Sverrissonar sem einnig hitti Fischer í fangelsinu.

Að sögn Sæmundar var svo góður hljómburður í móttökuklefanum, þótt lokað sé í milli með gleri, vegna þess að þar tala menn saman um hljóðnema og hátalarakerfi, að söngur hans glumdi um allt fangelsið.

„Þetta var ákveðinn mótleikur, svolítið skemmtilegur, sérstaklega eftir að Watai var gerð afturreka með blómin. Fischer ljómaði allur þegar Sæmundur var búinn að syngja, ég held að þetta hafði bjargað því sem hægt var að bjarga á þessum afmælisdegi,“ sagði Garðar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hann segir að hvert þeirra hafi fengið hálftíma til að vera með honum, 90 mínútur alls. „Hann var mjög einlægur og ánægður að fá okkur. Spurði mikið um okkar líðan. Það er frekar kaldranalegt að hann fái hvorki að taka í höndina á eða faðma unnustu sína á afmælisdaginn.“

Hann segir alvarlegt ef rétt reynist að japönsk yfirvöld ætli ekki að leyfa Fischer að fara til Íslands. „Það er alvarlegt ef þau ætla að sýna íslensku þjóðinni þá lítilsvirðingu að taka ekki mark á boði hennar um dvöl og virða að vettugi löglega útgefið vegabréf. Þetta er ekki bara niðurlæging gagnvart Fischer heldur líka Íslendingum sem frjálsri og fullvalda þjóð.“

„Allsherjarnefnd ákvað að bíða með afgreiðslu ríkisfangs þar til fullreynt væri að ferðaskilríkin nægðu. Nú þegar komið hefur í ljós að svo verði ekki ætti nefndinni ekkert að vera að vanbúnaði að reka endahnútinn á þá vinnu sem hún hefur lagt í málið og veita Fischer ríkisborgararétt. Ekki bíða eftir því að bandarísk stjórnvöld finni enn eitt og alls óskylt mál til að negla blásaklausan skákmann sem haldið er sem stórglæpamanni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka