Vangaveltur um að greiðviknin við Fischer muni koma Íslendingum í koll

Bobby Fischer á blaðamannafundi á Hótel Loftleiðum í gær.
Bobby Fischer á blaðamannafundi á Hótel Loftleiðum í gær. mbl.is/Sverrir

Flestir helstu fjölmiðlar heims fjölluðu um blaðamannafund Bobbys Fischers á Hótel Loftleiðum í gær og öfgafullar yfirlýsingar hans um bandarísk stjórnvöld og gyðinga. Í bandarískum fjölmiðlum er reynt að varpa á það ljósi hvers vegna Íslendingar ákváðu að veita Fischer ríkisborgararétt og kemur sú skoðun fram, að hugsanlega muni Íslendingar innan skamms sjá eftir þessari greiðvikni sinni.

Blaðamennirnir David Edmonds og John Eidinow, sem m.a. skrifuðu bókina Bobby Fischer Goes to War, skrifa grein í blaðið Los Angeles Times og velta því m.a. fyrir sér hvers vegna Ísland, sem hafi stutt Bandaríkin frá byrjun kalda stríðsins, hafi ákveðið að skjóta skjólshúsi yfir þennan óútreiknanlega gyðinga- og Bandaríkjahatara.

Ástæðan er tvíþætt, segja þeir. Annars vegar hafi Fischer komið Íslandi á landakortið, ef svo megi segja, í skákeinvíginu 1972, en þá hafi fréttir af einvíginu í Reykjavík rutt fréttum af Watergatemálinu, bandarísku forsetakosningunum og Idi Amin af forsíðum stórblaðanna.

„Við erum örríki," er haft eftir Þórði Ægi Óskarssyni, sendiherra Íslands í Japan. „Og Fischer veitti okkur aðra að tveimur helstu stundum okkar í mannkynssögunni." Hin er fundur Reagans og Gorbatsjevs í Reykjavík 1986.

Hin ástæðan er að sögn þeirra Edmonds og Edinovs sú, að Fischer hafi alltaf notið samúðar. Þegar hann var á hátindi skákferils síns hafi oft verið brugðist við sérkennilegri hegðun hans með því að segja: „Bobby lætur bara svona." Og Íslendingar geti sagt, að Fischer sé ekki hættulegur pólitískur áróðursmaður heldur eigi við eigin vandamál að stríða.

„Ísland hefur tekið þátt í þessu tafli með opin augun. Íslendingar vita manna best hverju búast má við af Bobby Fischer. En þessi nýjasti Íslendingur mun ekki sverja þagnareið - og þótt Íslendingar séu einstaklega gestrisin og hlý þjóð þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þeir muni ekki bráðlega sjá eftir gestrisni sinni," segir síðan í greininni.

Stríð á hendur Íslandi?
Í leiðara blaðsins Brocton Enterprise í Massachusetts, segir í dag að Bandaríkin hafi lýst stríði á hendur Albaníu og Kanada - í kvikmyndum. Nú sé ef til vill kominn tími til að beina spjótunum að Íslandi.

Blaðið segir að Ísland hafi veitt Fischer ríkisborgararétt og það virðist ekki skipta Íslendinga máli að Fischer, sem margir telji vera besta skákmann heims þar til Garri Kasparov kom fram á sjónarsviðið, sé sennilega klikkaður. Fischer hafi m.a. lýst því yfir að Bandaríkjunum sé stjórnað af gyðingum og að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sé stríðsglæpamaður sem eigi að hengja. Furðuleg reiðiköst hans í garð landsins, sem fóstraði hann og gerði honum kleift að vinna glæsta sigra við taflborðið, séu illskiljanleg venjulegu fólki.

„Þegar betur er að gáð er sjálfsagt best að Íslendingar fái að hafa hann. Við gætum jafnvel sleppt því að lýsa stríði á hendur Íslandi. Í staðinn ættum við að senda ávaxtakörfu til Reykjavíkur í þakkarskyni og líta á úrin okkar til að sjá hvað það tekur Fischer langan tíma til að snúast gegn enn einu landinu sem fóstrar hann," segir síðan í blaðinu.

Leiðari Brocton Enterprise

Grein Edmonds og Edinows

Mikill fjöldi fréttamanna var á fundi Fischers í gær.
Mikill fjöldi fréttamanna var á fundi Fischers í gær. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert