Nýjar jarðfræðirannsóknir sýna að misgengjakerfi við Kárahnjúka er viðameira en áður var talið og kann myndun Hálslóns og aukinn vatnsþrýstingur samfara því að valda misgengishreyfingum á Kárahnjúkasvæðinu. Þá kann virkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum, þar á meðal í Öskju, Kverkfjöllum og Snæfelli, að leiða til misgengishreyfinga við Kárahnjúka.
Þessar nýju athuganir benda því til að svæðið sé ekki fullkomlega stöðugt með tilliti til högunar og jarðskjálfta og að jarðfræðileg vá sé þar umfangsmeiri en áður hefur verið talið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um mat á jarðskjálftum og misgengi á Kárahnjúkasvæðinu sem unnin var að beiðni Landsvirkjunar og kynnt á fundi stjórnar Landsvirkjunar í vikubyrjun.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun má gera ráð fyrir að kostnaður við viðbótaraðgerðir vegna endurskoðunar á hönnun á stíflunum geti legið á bilinu 100-150 milljónir króna. Til samanburðar er heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun áætlaður 90 milljarðar króna á verðlagi í janúar 2005, þar af er kostnaður við stíflur við Kárahnjúka rúmir 25 milljarðar.
Að sögn Freysteins Sigmundssonar, jarðeðlisfræðings á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og formanns vinnuhóps sem vann fyrrnefnda skýrslu, einkennist Kárahnjúkasvæðið í dag að lítilli eða engri jarðskjálftavirkni, en niðurstöður nýlegra jarðfræðirannsókna veki áhyggjur þar sem þær sýni að hreyfing hafi orðið á misgengi á nútíma í Sauðárdal, um 5 km suður af Kárahnjúkastíflunni. Virk hreyfing á nútíma þýðir að hreyfing hafi orðið eftir að ísöld lauk fyrir 10 þúsund árum. Segir Freysteinn vísbendingar um að á svæðinu hafi orðið misgengishreyfing nokkrum sinnum á nútíma, síðast fyrir 3000-4000 þúsund árum. Liggur þetta misgengi að hluta undir lónstæði Hálslóns.
Aðspurður hvort menn hefðu átt að sjá þessa vá fyrir segir Freysteinn það annarra að meta hvort þetta sé ásættanlegur framgangur. "Landsvirkjun mat það þannig þegar farið var af stað með verkefnið að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir. Það er alveg ljóst að það koma fram nýjar upplýsingar eftir að framkvæmdin hefst og það leiðir auðvitað til þess að jarðfræðileg vá eða hætta er umfangsmeiri en áður hafði verið talið," segir Freysteinn og bendir á að í sjálfu sér sé ekkert óeðlilegt við svona stórar framkvæmdir að nýjar upplýsingar komi fram á framkvæmdatímanum.
Skýrsluhöfundar leggja til frekari athuganir til að fá staðfestingar á hegðun jarðskorpunnar. M.a. verði fylgst með svæðinu næst stíflunum og lóninu með landmælingum og athugunum á jarðskorpuhreyfingum.