Veitingamenn leggja til reykingabann 2007

Samtök ferðaþjónustunnar samþykktu á aðalfundi sínum í gær að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að reykingar verði bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum frá og með 1. júní 2007. Það voru hótel- og veitingamenn sem báru fram tillögu þessa efnis og hlaut hún samhljóða samþykki aðalfundar.

Í tillögunni segir meðal annars að miklar breytingar hafi orðið síðustu árin á reykingavenjum fólks og tillitssemi aukist til muna. Hótel- og veitingamenn innan samtakanna hafi í fjölmörg ár unnið að því að reyklausum svæðum yrði fjölgað og nú sé svo komið að um 80 veitingastaðir séu alveg reyklausir og fjölmargir staðir til viðbótar leyfi ekki reykingar í matsölum. Þá hafi miklar umræður verið síðustu árin um starfsumhverfi þeirra sem vinna í reykmettuðu lofti og hafi nokkur lönd því bannað reykingar á veitingastöðum, sem og öðrum vinnustöðum.

Bann óhjákvæmilegt

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir eftirspurn gesta eftir reyklausum svæðum og herbergjum hafa aukist gríðarlega mikið. "Maður sem rekur stórt hótel úti á landi var að segja okkur áðan að þegar hann byrjaði var hann með tíu reyklaus herbergi af sjötíu, en nú er hann með tíu herbergi þar sem reykingar eru leyfðar," segir Erna. "Við höfum fylgst með þeim umræðum sem hafa átt sér stað bæði hérlendis og erlendis, hvað varðar starfsaðstæður fólks og vinnuvernd. Í ljósi þeirrar þróunar var það niðurstaða veitingamanna að taka upp viðræður við stjórnvöld um að reykbann verði sett á, en ekki fyrir 1. júní 2007, til að gefa mönnum svigrúm til að aðlagast. Það verður ekki litið fram hjá því að það fylgir mikið af vandamálum þessum breytingum, þannig að það er mjög merkilegt að veitingahúsin skuli ganga fram fyrir skjöldu og móta sér stefnu í þessu máli."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert