Ragnheiður Gestsdóttir hlaut barnabókaverðlaun

Ragnheiður og Guðni með verðlaun sín.
Ragnheiður og Guðni með verðlaun sín.

Ragnheiður Gestsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur fyrir bestu frumsömdu barnabókina í ár. Verðlaunin hlýtur hún fyrir bók sína Sverberann sem kom út hjá Eddu útgáfu síðastliðið haust. Þetta er í annað sinn sem Ragnheiður hlýtur þessi verðlaun en hún fékk þau einnig árið 2001 fyrir unglingasöguna 40 vikur.

Þá hlaut Guðni Kolbeinsson verðlaun fyrir bestu þýðingu barnabókar fyrir þýðingu bókarinnar Abarat eftir Clive Barker. Verðlaunin voru afhent síðdegis í Höfða.

Ragnheiður hlaut einnig í síðustu viku Norrænu barnabókaverðlaunin 2005 fyrir höfundarferil sinn sem rithöfundur og myndlistarmaður, með sérstakri áherslu á Sverðberann.

Tilgangur Barnabókaverðlauna fræðsluráðs er að örva metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn og að vekja athygli á því sem vel er gert á þessum mikilvæga vettvangi íslenskrar bókaútgáfu. Úthlutunarnefndin er skipuð af fræðsluráði Reykjavíkur.

Sverðberinn segir frá Signýju, sem slasast alvarlega í bílslysi og liggur í dái á sjúkrahúsi. Önnur höfuðpersóna sögunnar er Leda, en það er einmitt nafnið sem Signý hafði valið á persónu sína í hlutverkaleik. Sagan gerist á tveimur sviðum: Á sjúkrahúsinu fylgist lesandinn með fjölskyldu og vinum Signýjar og fær innsýn í líf þeirra, en Leda þarf að særa íshjarta drottningar í ævintýraheimi til að frelsa álfaþjóð undan ánauð. Sagan er afar vel byggð og spennandi og hefur jafnframt yfir sér heillandi blæ ævintýrisins.

Ragnheiður Gestsdóttir er fædd í Hafnarfirði 1953. Hún hefur auk Norrænu barnabókaverðlaunanna hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín.

Ragnheiður er kennari að mennt og stundaði einnig háskólanám í listasögu og bókmenntafræði. Hún hefur sótt bæði byrjenda- og framhaldsnámskeið í handritagerð á vegum Kvikmyndasjóðs og námskeið í leikritun á vegum Endurmenntunarstofnunar HÍ. Ragnheiður er sem stendur formaður Síung, samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert