Athugasemd frá Almenningi ehf.

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Agnesi Bragadóttur, formanni stjórnar Almennings ehf.:

"Í frétt í Morgunblaðinu í dag, föstudaginn 29. apríl, undir fyrirsögninni "Rétt að hafna útboðslýsingu" er greint frá því að Jóhannes Sigurðsson, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, telji rétt að Fjármálaeftirlitið hafnaði útboðslýsingu Almennings ehf. Ég tel á hinn bóginn að það hafi verið rangt. Jóhannes tilgreinir sem rök að eðlilegt hafi verið að gera kröfu um að útboðslýsing Almennings ehf. innihéldi upplýsingar um Landssímann hf. enda sé það eini tilgangur félagsins að fjárfesta í hlutabréfum Landssímans.

Landssíminn hefur verið á markaði og bréf í honum hafa gengið kaupum og sölum, þótt í mjög takmörkuðum mæli hafi það verið. Almenningur hefur sem sé átt kost á því að kaupa og selja bréf í Símanum og þá væntanlega aðeins getað stuðst við hin opinberu gögn Símans, eins og ársskýrslur fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið hefur ekki gert athugasemdir við slík viðskipti og tel ég því að það hefði átt að nægja að Almenningur ehf. léti ársskýrslur Símans fylgja með útboðslýsingu á Almenningi ehf.

Í öðru lagi bendir Jóhannes á að líklega væri Fjármálaeftirlitinu rétt að hafna beiðni Almennings um að fara í almennt útboð, "þar sem það hafi þegar farið fram almennt útboð með því að hvetja fólk til kaupa á hlutum á vefnum án þess að fyrir lægi útboðslýsing. Með því hafi Almenningur líklega brotið reglur um almennt útboð". Við þessa útleggingu Jóhannesar vil ég gera þá athugasemd að ég hafna því að Almenningur hafi þegar staðið fyrir almennu útboði. Forsvarsmenn hafa hvar sem er, í ræðu, riti, fjölmiðlasamtölum, símtölum og tölvupóstssamskiptum tekið það skýrt fram, að ekki væri um hlutafjársöfnun að ræða, heldur væru þeir að kanna vilja almennings til þess með hvaða hætti hann væri hugsanlega reiðubúinn að koma að kaupum á hlut í Símanum, þegar og ef til útboðs Almennings kæmi.

Á könnun sem þessari og formlegri útboðslýsingu tel ég vera grundvallarmun.

Fyrir hönd stjórnar Almennings ehf. Agnes Bragadóttir."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka