Ísland og Kína gera samning um undirbúning fríverslunarviðræðna

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, og Bo Xilai, utanríkisviðskiptaráðherra Kína hafa undirritað samkomulag milli landanna sem er undanfari fríverslunarviðræðna. Samkomulagið felur í sér að gerð verður sameiginleg hagkvæmnikönnun til undirbúnings fríverslunarsamnings milli landanna og er Ísland fyrsta ríkið í Evrópu sem Kína gerir slíkt samkomulag við.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, að íslenskt atvinnulíf hafi aukið verulega samskipti við kínverska aðila á undanförnum árum, sérstaklega eftir að sendiráð var opnað í Peking árið 1995. Utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Peking hafi leitast við að greiða fyrirtækjum leið inn á kínverska markaðinn bæði með beinni aðstoð viðskiptafulltrúa og því að byggja upp samninganet við Kína og er þetta samkomulag liður í þeirri viðleitni.

Í samkomulaginu er einnig yfirlýsing um að Ísland viðurkennir stöðu Kína sem markaðshagkerfis. Í því felst að Ísland mun ekki beita auknum heimildum til verndaraðgerða gegn kínverskum innflutningi, sem veittar voru í aðildarsamningi Kína að Heimsviðskiptastofnuninni (WTO) á sínum tíma, en hefur áfram sömu heimildir gagnvart Kína eins og gagnvart öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Ísland hefur almennt gert fríverslunarsamninga innan samstarfs EFTA ríkjanna, með Sviss, Noregi og Liecthenstein. Í þessu tilviki er hins vegar um tvíhliða samkomulag Íslands og Kína að ræða og verður rætt innan EFTA samstarfsins um hugsanlega aðkomu hinna EFTA ríkjanna á síðari stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert