Ekki greint frá fjölda bjóðenda í Símann í dag

Frestur til að leggja fram tilboð í hlutafé ríkisins í …
Frestur til að leggja fram tilboð í hlutafé ríkisins í Símanum rann út í dag.

Frestur til þess að skila inn tilboðum, sem ekki eru bindandi, í Símann, rann út klukkan 15 í dag. Stefán Jón Friðriksson, starfsmaður hjá framkvæmdanefnd um einkavæðingu, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að hvorki yrði greint frá fjölda bjóðenda né nöfnum þeirra í dag.

Á morgun mun nefndin væntanlega senda frá sér fréttatilkynningu, að sögn Stefáns Jóns. Hann segir að þar verði skýrt frá því hversu margir lögðu inn tilboð og frá helstu atriðum sem munu eiga sér stað í framhaldinu. Nöfn bjóðenda verði þó væntanlega ekki birt fyrr en í næstu viku.

„Þetta var ákvörðun nefndarinnar vegna þess að það er eðlilegra að þegar fyrir liggur hverjir bjóða, og þegar búið er að fara yfir öll tilboð, að þá verði greint frá nöfnunum,“ segir Stefán Jón. „Það verður væntanlega um miðja næstu viku,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert