Norræn vefsíða um skattamál opnuð

Fjármálaráðherrar Norðurlandanna opnuðu í dag norræna vefsíða um skattamál en hún er hluti af viðamiklu verkefni sem unnið hefur verið að á undanförnum árum og snýr að því að brjóta niður hindranir í samskiptum borgaranna yfir landamæri.

Skattamál hafa verið talinn einn veigamesti þátturinn sem snýr að almenningi þar sem hægt er að ná árangri í þessum efnum og bindur Norðurlandaráð miklar vonir við vefsíðuna.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er norræna vefsíðan um skattamál samstarfsverkefni ríkisskattstjóraembætta allra Norðurlandanna en öll forritun hefur verið unnin af starfsmönnum hugbúnaðarsviðs RSK og síðan er vistuð hér á landi.

Norrænu fjármálaráðherrarnir hafa í vikunni setið fundi í Kaupmannahöfn. Í gær var haldinn fyrsti fundur ráðherraráðs Norræna fjárfestingarbankans eftir að Eistar, Lettar og Litháar gerðust aðilar að bankanum. Gerð var grein fyrir afkomu bankans 2004, sem var mjög góð, og framtíðarhorfum. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, lætur af formennsku í ráðinu 1. júní og við tekur Bent Bentsen, efnahagsráðherra Dana.

Einnig var í gær haldinn árlegur fundur fjármálaráðherra Eystrasaltsráðsins, þ.e. Norðurlanda, Eystrasaltslanda auk Þýskalands og Póllands. Viðfangsefni þess fundar var m.a. umfjöllun um þau tækifæri fyrir svæðið sem felast í stækkun Evrópusambandsins en Svíar hafa haft frumkvæði að sérfræðingaskýrslu um það efni. Þá gerði fjármálaráðherra Póllands grein fyrir stöðu efnahagsmála þar í landi og þeim breytingum sem aðild þeirra að ESB hefur haft í för með sér.

Norræna skattasíðan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka