Ánægður með tilboð íslensku fjárfestanna

Jón Sveinsson, formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, kveðst ánægður með áhuga fjárfesta á hlut ríkisins í Símanum. Mörg tilboðanna séu feiknalega vel gerð og greinilega mikið í þau lagt.

Hann kveðst ánægður með hlut íslensku fjárfestanna, að baki tilboðunum séu margir öflugir fjárfestar.

Tvö af fjórtán tilboðum í Símann verða ekki með í áframhaldandi útboðsferli. Jón segir að þar ráði að inn í þau hafi vantað ákveðna þætti, þau hafi ekki verið skýr og ekki tekið á öllum atriðum sem sett voru sem skilyrði fyrir tilboðum. Þá hafi af hálfu bjóðenda verið gerðir fyrirvarar við tilboðin sem ekki var gert ráð fyrir, en þau snerust fyrst og fremst um sölu á 30% hlut í Símanum.

Nefndin kallaði eftir upplýsingum um möguleg eignatengsl áður en upplýst var um bjóðendur. Jón segir að sum þessara atriða hafi einungis kallað á skýringar sem tengdust hugsanlegum tengslum á milli aðila. "Það verður auðvitað að segjast eins og er að í okkar litla samfélagi eru ýmsar tengingar, bæði persónulegar og fjárhagslegar." Í sumum tilboðanna, þar sem mönnum hafi verið ljóst að hugsanlega léki vafi á eignatengslum, hafi fylgt skýringar og upplýsingar um sölu á einstökum hlutum og fyrirhugaðar breytingar viðkomandi aðila ef ástæða þótti til. "Í sumum tilvikum gengum við eftir því að það yrði gert og allir aðilar sem um var að ræða brugðust við í því efni. Þannig að þeir uppfylltu þau skilyrði sem við höfum sett í því sambandi."

Ekki verður upplýst að svo stöddu hvað einstakir hópar buðu í stóran hlut í Símanum, en þó liggur fyrir að sumir bjóða í allan hlut ríkisins en aðrir í smærri hluta. Jón minnir á að einhverjir fjárfestar kunni að slá sér saman um endanleg tilboð með einhverjum hætti eða fá utanaðkomandi aðila í hópinn. Engir norrænir fjárfestar eru í hópi bjóðenda en danska ríkissímafyrirtækið, TeleDanmark, hafði verið nefnt til sögunnar sem mögulegur kaupandi. Spurður út í þetta segir Jón að ekki sé útilokað að einhverjir norrænir aðilar geti komið að tilboðum í Símann á síðara stigi.

Enginn þeirra fjárfesta sem skiluðu tilboðum í Símann hafi beina reynslu af rekstri fjarskiptafyrirtækja, að sögn Jóns. Hann minnir á að ekki hafi verið gerð krafa um það með sama hætti og þegar sala Símans var áformuð 2001.

Gagnaherbergi útbúin

Að sögn Jóns hefst nú vinna við að útbúa sk. "gagnaherbergi" (e. datarooms) þar sem safnað er saman tilteknum upplýsingum um fyrirtækið sem aðilar sem bjóða í Símann fá aðgang að í samráði við starfsmenn Símans, nefndina og Morgan Stanley. Nokkra daga taki fyrir hvern og einn bjóðanda að fara í gegnum ferlið. Þá séu framundan kynningar fyrir aðila af hálfu Símans um rekstur og stöðu fyrirtækisins.

Jón minnir á að allar þessar upplýsingar séu trúnaðarupplýsingar.

Gert er ráð fyrir að þessu ferli verði lokið um miðjan júlí og þá verði bjóðendur að hafa myndað endanlega hópa fjárfesta. Það verði í öllu falli að liggja fyrir tveimur vikum áður en tilboðum skal skilað inn, sem reiknað er með að verði í lok júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert