Helmings launamunur milli kynja eftir háskólanámið

Könnun um stöðu og störf fólks sem nýlega útskrifaðist frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst kemur fram að launamunur karla og kvenna eftir útskrift er verulegur, eða tæp 50%. Karlkyns nemendur geta því búist við að fá helmingi hærri laun að lokinni útskrift en konur og ætlar skólinn að berjast gegn þessu misrétti með nemendum sínum.

Þetta kom fram í ræðu Runólfs Ágústssonar, rektors Bifrastar, við útskrift nýnema í gær, laugardag. Runólfur sagðist þess fullviss að það sama gilti um nemendur í viðskipta- og lögfræðinámi í öðrum skólum, enda gildi engin önnur lögmál á Bifröst en þau sem gilda almennt í samfélaginu.

Atvinnulífið vanmetur konur

"Staðreyndin meðal nýútskrifaðra viðskipta- og lögfræðinga virðist vera þessi óhugnanlegi kynbundni launamunur. Munur sem á sér engin sjáanleg rök önnur en vanmat atvinnulífsins á konum. Kynbundinn launamunur er smánarblettur á íslensku atvinnulífi. Svo einfalt er það. Þetta misrétti er ólíðandi í siðuðu samfélagi. Gegn því þurfum við að berjast með öllum tiltækum ráðum," sagði Runólfur.

Runólfur sagði að Bifröst ætlaði ekki að sitja hjá og þola þetta óréttlæti, heldur leggjast á árarnar með nemendum og láta verkin tala. T.d. hefði verið skrifað undir samning við félagsmálaráðuneytið um stofnsetningu rannsóknarseturs vinnuréttar og jafnréttismála, sem á m.a. að veita atvinnulífinu aðhald. Einnig verður með næsta útskriftarárgangi myndaður átakshópur meðal kvenna í útskriftarhópnum sem mun vinna með starfsfólki skólans að eflingu vitundar kvenna um stöðu sína og verðmæti á vinnumarkaði. Að lokum munu svo niðurstöðurnar verða kynntar íslenskum fyrirtækjum og leitað eftir samstarfi við þau um úrbætur.

Fyrstu meistaranemarnir útskrifaðir

Í gær voru í fyrsta sinn útskrifaðir meistaranemar frá Bifröst, en þá voru útskrifaðir þrír nemendur með MA-gráðu í hagnýtum hugvísindum frá viðskiptadeild skólans. Tvö ár eru síðan ákveðið var að hefja nám á meistarastigi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka