Telur Alcoa verða að breyta fyrirhuguðum mengunarvörnum til að standast umhverfismat

Hjörleifur Guttormsson telur að Fjarðarál Alcoa verði að gera breytingar á fyrirhuguðum mengunarvörnum álversins í Reyðarfirði eigi það að komast í gegnum væntanlegt umhverfismat, í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar í dag. „Ég ætla bara að vona það, Alcoa vegna, að þeir endurskoði málið frá grunni,“ segir Hjörleifur.

.Hjörleifur segist telja úrskurð Hæstaréttar afar mikilvægan og hafa „verulega þýðingu fyrir stöðu umhverfisréttar í landinu“, með tilliti til almenns samhengis málsins.

Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms „og meira gat ég nú eiginlega ekki vænst í sambandi við þetta mál“. Hann kveðst á sínum tíma hafa talið niðurstöðu héraðsdóms mjög mikilvæga og það hafi fleiri gert.

„Lagalega séð vantar grunninn undir þetta álver. Forsenda þeirra framkvæmda sem nú standa yfir er lögum samkvæmt mat á umhverfisáhrifum. Það mat er ekki til staðar. Lög voru brotin með því að ekki var látið fara fram sjálfstætt mat. Hæstiréttur tekur nú skýrt fram að slíkt mat beri að fara fram og það hefur að sjálfsögðu sínar lögfylgjur.“

Hjörleifur segir að falli niðurstaða umhverfismatsins Alcoa í hag verði að úthluta fyrirtækinu nýju starfsleyfi á grundvelli matsins. „Þannig að forsendurnar fyrir því starfsleyfi sem fyrirtækið fékk frá Umhverfisstofnun í mars 2003 eru brostnar. Það blasir við.“

Héraðsdómur ómerkti í janúar, að kröfu Hjörleifs, úrskurð umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003, þar sem staðfest var ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um að álver fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu þyrfti ekki að sæta umhverfismati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka