Skjálftahrinur tíðar við Kleifarvatn

Rauðu deplarnir og stjörnurnar sýna hvar upptök skjálftanna í morgun …
Rauðu deplarnir og stjörnurnar sýna hvar upptök skjálftanna í morgun hafa verið. Kortið er tekið af vef Veðurstofunnar.

Jarðskjálfti af stærðinni 3,4 á Richter fannst í Reykjavík um klukkan 7:43 í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands benda fyrstu vísbendingar til að upptök skjálftans hafi verið við Kleifarvatn. Samkvæmt sjálfvirkum skjálftalista Veðurstofunnar hefur á þriðja tug skjálfta orðið í nágrenni vatnsins frá því í nótt. Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur Veðurstofu Íslands, segir jarðskjálfta tíða á Reykjanesskaganum enda séu kvikutilfærslur algengar á svæðinu.

Ragnar sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að skjálftahrina hafi hafist á þessum slóðum á fimmta tímanum í nótt. Hann sagði ekki langt í eldvirkni á þessum slóðum. „Það er kvika sem er djúpt niðri í berginu sem leitar upp og veldur jarðskjálfta,“ sagði Ragnar og benti á að skjálftahrinur séu tíðar á þessum slóðum og ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur.

Skjálftinn í morgun er meðalskjálfti við Kleifarvatn. Aðeins tveir stærri skjálftar hafa orðið á svæðinu svo elstu menn muna. Haustið 1973 og sumarið 2000 mældust tveir af stærðinni 5 á Richter sem áttu upptök sín vestan við Kleifarvatn.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var hrina á svipuðum slóðum í ágúst 2003. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu mældist af stærð rúmlega 4.

Í júlí 2004 mældist all nokkur hrina við Fagradalsfjall, nokkuð vestar á Reykjanesskaga. Þá mældust nokkur hundruð skjálfta á nokkrum dögum, en enginn þeirra náði stærðinni 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka