Komið að útrás íslenskra presta til Kanada?

Hugmyndir um að íslenskir prestar og guðfræðingar þjóni söfnuðum lúthersku kirkjunnar í Kanada verða m.a. ræddar á fundum fulltrúa íslensku þjóðkirkjunnar og lúthersku kirkjunnar í Kanada, hér á landi um helgina. Að sögn Halldórs Reynissonar, verkefnisstjóra á Biskupsstofu, eiga hugmyndirnar m.a. rætur sínar að rekja til þess að ekki séu næg störf fyrir guðfræðinga sem útskrifast hér á landi á ári hverju.

Halldór bendir m.a. á að um það bil tíu til tuttugu guðfræðingar hafi sótt um hvert einasta prestsembætti sem hafi losnað síðustu misserin. Á annað hundrað prestar starfi hér á landi, og um fimm til tíu guðfræðingar brautskráist frá Háskóla Íslands á hverju ári. „Þetta er því spurning um útrás íslenskra presta,“ segir Halldór og bendir á að þó nokkur eftirspurn sé eftir prestum og guðfræðingum í Kanada.

Prestaskipti möguleg
Biskupar og prestar frá lúthersku kirkjunni í Kanada eru hér á landi vegna prestastefnu og kirkjudaga, sem fram fara í Reykjavík um helgina. Richard Smith, biskup í Winnipeg, er einn þeirra. Hann útilokar ekki í samtali við Morgunblaðið að íslenskir prestar og guðfræðingar geti þjónað þar vestra. Sterk tengsl séu milli íslensku þjóðkirkjunnar og lúthersku kirkjunnar í Kanada. Rúmlega eitt hundrað þúsund manns eru í síðarnefndu kirkjunni.

Smith segir að ýmislegt geti þó staðið í vegi fyrir því að umræddar hugmyndir nái fram að ganga. Hann bendir til að mynda á að í Kanada séu laun presta greidd af söfnuðunum sjálfum en hér á landi séu launin greidd úr ríkissjóði skv. samningi ríkis og kirkju frá 1997. Ekki sé því víst að söfnuðirnir telji sig aflögufæra vegna þess aukakostnaðar sem geti fylgt því að fá presta og guðfræðinga alla leið frá Íslandi.

Smith er hins vegar mjög áfram um það að tengslin milli íslensku og kanadísku kirkjunnar verið efld enn frekar. Hann telur því líklegt að fyrst í stað verði gert samkomulag um "prestaskipti", þ.e. að íslenskir prestar þjóni kanadískum söfnuðum um tíma og öfugt.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, tekur vel í þær hugmyndir að íslenskir prestar og guðfræðingar þjóni vestra. „Hér er talsverður skortur á störfum fyrir presta,“ segir hann. Karl bendir auk þess á að íslenskur söfnuður hafi verið í Kanada allt fram á sjöunda áratuginn. Margir íslenskir prestar hafi þjónað þar í áraraðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka