Fjögurra sæta Cessna-flugvél hlekktist á í flugtaki í Fljótavík á Hornströndum í gær. Um borð voru þrír farþegar auk flugmanns en engan sakaði. Vélin lenti á vinstri hlið og skemmdist mikið.
Óhappið varð síðdegis í gær og fékk lögreglan á Ísafirði tilkynningu um málið um kl. 18. Fóru lögreglumenn á vettvang ásamt fulltrúa rannsóknanefndar flugslysa og flugmálastjórnar. Málið er í rannsókn og liggja orsakir óhappsins ekki fyrir.
Landhelgisgæslan aðstoðaði rannsóknarlið með því að flytja það á TF LIF, þyrlu Gæslunnar, og stóð til að þyrlan flytti flugvélina um borð í varðskip sem tæki hana til Reykjavíkur í frekari rannsókn.