Slysavarnafélagið Landsbjörg segir að mótmæli atvinnubílstjóra, sem fyrirhuguð eru í dag eða á morgun, gætu reynst hættuleg þeim ökumönnum sem verða á leið út úr bænum á þeim tíma sem mótmælin fara fram og klukkustundirnar á eftir.
Ástæðan er sú að þegar svo mikil umferð er, þá hægist á henni og ekki bætir úr ef stöðva eða hægja þarf á umferð, og þannig gætu menn farið að taka óþarfa áhættu í umferðinni því þolinmæðin þeirra sé brostin.
„Ljóst er að ef af mótmælum atvinnubílstjóra verður gæti það reynt á þolrif þeirra ökumanna sem þurfa að aka framhjá þeim, en búast má við miklum töfum ef þau verða. Við hvetjum atvinnubílstjóra til þess að sýna skynsemi og leyfa umferðinni að ganga sinn vanagang á þessari stóru ferðahelgi landsmanna. Þar á fyrir utan hvetjum við ökumenn sem leggja leið sína út úr höfuðborginni til að aka varlega og sýna þolinmæði í umferðinni. Með samvinnu getum við haft þessa helgi slysalausa," segir í tilkynningu Slysavarnafélagsins Landsbjargar.