Hvannadalshnjúkur, hæsti tindur landsins, hefur lækkað lítillega og mælist nú 2110 metrar en var áður 2119 metrar. Þetta kom fram hjá Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra á blaðamannafundi fyrir stundu. Halldór sló á létta strengi og sagði hugsanlegt að tindurinn kynni að hækka að nýju þegar snjóaði í vetur en sagði að Íslendingar yrðu að venjast hinni nýju hæð tindsins. Landmælingar Íslands sáu um mælingar á tindinum og eru mælingarnar það ítarlegar að ljóst er að nákvæm hæð hæsta tinds landsins nú er 2.109,6 metrar.
Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, kynnti niðurstöðuna ásamt Halldóri. Hún sagði að Hvannadalshnjúkur yrði áfram tignarlegastur allra tinda á Íslandi og hæstur.
„Einhverjir metrar til eða frá skipta kannski ekki öllu máli,“ sagði hún.
Fram kemur í tilkynningu frá Landmælingum Íslands að í morgun hafi verið lokið við útreikninga og gagnavinnslu í kjölfar mælinganna á Hvannadalshnjúk.
Mælingar á Hvannadalshnjúk fóru fram dagana 27.–29. júlí og heppnuðust í alla staði vel. Greiðlega gekk að koma tækjum að og frá mælingastöðum og hjálpaði gott veður mikið til. Landmælingar Íslands vilja koma á framfæri sérstöku þakklæti til Landhelgisgæslunnar sem sá um að flytja fólk og tæki á meðan á mælingunum stóð, að því er segir í tilkynningunni. Þar er haft eftir Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra LMÍ, að stefnt sé að því að mæla hæð Hvannadalshnjúks með reglubundnum hætti í framtíðinni. Áætlað er að það verði gert á 10 ára fresti.