Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði við undirritun á sölu Símans í dag að löngu og ströngu ferli væri lokið, nú þegar búið væri að undirrita kaupsamning um þetta mikilvæga mál. „Það hefur einkar vel tekist til og á ríkisstjórnarfundi rétt áðan lýsti ríkisstjórnin öll sérstakri ánægju með þetta mál og þakkar öllum þeim fjölmörgu aðilum sem að því hafa komið,“ sagði Halldór.
„Síminn er afar mikilvægt fyrirtæki fyrir fámenna þjóð eins og okkar. Samfélagslegt hlutverk þessa fyrirtækis er mjög brýnt og það er mikilvægt að fyrirtækið njóti áfram trausts þjóðarinnar og ég er sannfærður um að það muni gerast. Við gerum miklar væntingar til nýrra eigenda og við treystum þeim jafnframt fyllilega fyrir því að byggja það enn frekar upp og efla það og bjóða betri þjónustu en nokkru sinni fyrr,“ sagði Halldór.
Telur að ríkið hafi fengið sanngjarnt verð fyrir Símann
„Ríkisvaldið hefur nú alfarið dregið sig út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði og ég er sannfærður um að ríkið hafi fengið sanngjarnt verð með þessari sölu Ég vænti þess að kaupendur hafi jafnframt greitt fyrir það sanngjarnt verð og mikilvægt að báðir aðilar séu ánægðir með þennan samning,“ sagði Halldór enn fremur.
„Ég vil fyrir hönd ríkisstjórnarinnar óska kaupendum og þjóðinni innilega til hamingju með þennan merka áfanga og ég óska nýjum eigendum velfarnaðar í rekstrinum í framtíðinni og er sannfærður um að bæði starfsfólkið og þjóðin öll eigi eftir að njóta krafta þeirra,“ sagði Halldór að lokum.
Mikil tímamót
Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sagði í ræðu að undirritun lokinni að um mikil tímamót væri að ræða. „Með þessari undirritun segir íslenska ríkið skilið við þátttöku sína á almennum fjarskiptamarkaði eftir rúmlega aldar-þátttöku í rekstri á því sviði,“ sagði Geir.
„Ég vil óska öllum þeim sem hér áttu hlut að máli til hamingju með þann árangur sem náðst hefur. Við í ríkisstjórninni erum mjög ánægð með það hvernig þetta ferli hefur gengið fyrir sig og hversu vel það hefur lánast. Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á þann plóg, framkvæmdanefnd um einkavæðingu, ráðgjöfum nefndarinnar og starfsmönnum,“ sagði Geir enn fremur.
„Nú liggur það fyrir að koma málinu til samkeppnisyfirvalda sem munu fara yfir málið út frá sínum sjónarmiðum. Að því gefnu að allt gangi vel fyrir sig á þeim vettvangi munu eiga sér stað skipti á hlutabréfum annars vegar og peningaupphæðinni sem reidd verður af hendi hins vegar, vonandi innan nokkurra vikna,“ sagði Geir.
„Þar með verður búið að breyta þessari mikilvægu eign þjóðarinnar úr því að vera hlutabréf í Símanum yfir í reiðufé. Það er svo á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að ráðstafa því. Ég vil ekki ráða þann þátt málsins núna, en tel mig geta fullyrt að þeim peningum verður ekki á glæ kastað. Þeim mun verða ráðstafað í þágu þjóðarinnar,“ sagði Geir að lokum.
Sala Símans skólabókardæmi um vel heppnaða einkavæðingu
Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar sem nú verður kjölfestufjárfestir í Símanum með 45% hlut, segist mjög ánægður með kaupin á Símanum. „Við berum fyllsta traust til starfsmanna og stjórnenda Símans og ætlum að tryggja að hann verði áfram eftirsóknarverður vinnustaður,“ sagði Lýður.
„Það er ekki vandalaust að annast sölu á fyrirtæki sem á jafn stóran sess í vitund þjóðarinnar. Ég vil því taka undir með þeim sem segja að sala Símans sé skólabókardæmi um vel heppnaða einkavæðingu. Allt ferlið er þeim sem að því stóðu til sóma,“ bætti Lýður við.
„Þátttaka lífeyrissjóða tryggir afkomu stórs hluta landsmanna af fyrirtækinu og með skráningu félagsins munu enn fleiri hluthafar bætast í hópinn. Með nýjum eigendum fullyrði ég að tryggt hafi verið að Síminn eigi áfram öflugan bakhjarl sem standa mun vörð um fyrirtækið og viðskiptavini þess,“ sagði Lýður að lokum.
Sjá trygga og örugga arðsemi af fjárfestingunni
Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem eignaðist með kaupunum 8,25% hlut í Símanum, segir kaupin fela í sér mikla möguleika fyrir sjóðinn. „Lífeyrissjóðurinn er stórt og öflugt fyrirtæki með farsælan rekstur og við teljum að þetta eigi sér mikla framtíðarmöguleika. Þannig að það sem að við sjáum í þessu er nokkuð trygg og örugg vænting um góða arðsemi á komandi árum af þessari fjárfestingu,“ segir Þorgeir.
Aðspurður segir Þorgeir að kaupin muni skila sér til almennings. „Þau mun örugglega skila sér til sjóðfélaganna, þeir munu njóta njóta hags af því ef að vel gengur eins og við væntum og vonum,“ segir Þorgeir.