Sjö voru fluttir á slysadeild eftir að strætisvagn og vörubíll lentu harkalega saman á gatnamótum Kringlumýrarbrautar, Laugavegar og Suðurlandsbrautar við Kauphöll Íslands um stundarfjórðung yfir 9 í morgun. Mikið lið björgunarmanna er á vettvangi og þurfti að klippa súlur í strætisvagninum til að ná nokkrum farþega úr honum. Gatnamótunum verður lokað í klukkutíma vegna þessa.
Fjórir sjúkrabílar og lögreglubílar eru á vettvangi auk tækjabíls frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Strætisvagninn var á leið frá Hótel Nordica við Suðurlandsbraut í átt að Hlemmi þegar vörubíllinn ók inn í framhlið hans á gatnamótunum. Strætisvagninn er mikið skemmdur.
Sjö farþegar voru í honum og voru þeir allir fluttir á slysadeild.