Guðmundur Kjærnested, fyrrverandi skipherra, andaðist 2. september sl. á gjörgæsludeild Landspítalans, 82 ára að aldri. Guðmundur var einn nafntogaðasti skipherra Landhelgisgæslunnar og tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum við Breta.
Guðmundur fæddist 29. júní 1923 í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Halldór Kjærnested bryti og Margrét Halldóra Guðmundsdóttir.
Guðmundur stundaði nám í Héraðsskólanum að Laugarvatni 1939–41. Hann lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1949 og skipstjóraprófi á varðskipum ríkisins árið 1953. Guðmundur var háseti á Belgaum, Dettifossi og síðar á varðskipinu Ægi á árunum 1940–49. Stýrimaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar 1949–53 og skipherra frá 1954–84.
Guðmundur var alla tíð virkur í félagslífi og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina. Hann sat í trúnaðarráði Stýrimannafélags Íslands á árunum 1950–53, var formaður Starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar 1959–65, ritari Skipstjórafélags Íslands 1962–66 og formaður þess 1971–75. Hann var einnig forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands á árunum 1973–75.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Margrét Anna Símonardóttir, en þau giftust hinn 11. október 1944. Þau eignuðust fjögur börn, Símon Inga, Örn, Helga Stefni og Margréti Halldóru.