Skemmtiferðaskipið Norwegian Jewel í ytri höfninni

Norwegian Jewel í ytri höfninni í dag.
Norwegian Jewel í ytri höfninni í dag. Morgunblaðið/Júlíus

Skemmtiferðaskipið Norwegian Jewel liggur nú í ytri höfninni innan Engeyjar. Skipið, sem er skráð á Bahamaeyjum, er 296 metra langt og er glænýtt, en það kom úr skipsmíðastöð í lok ágúst. 3.500 manns eru um borð, 2.400 farþegar og 1.100 manna áhöfn. Helmingur farþeganna er frá Bandaríkjunum og hinn helmingurinn frá hinum ýmsu Evrópulöndum.

Skipið kom hingað frá Írlandi klukkan 7 í morgun og fóru flestir farþeganna í land, en skipið leggur svo úr höfn klukkan 16. Héðan fer það til St. John´s á Nýfundnalandi og svo áleiðis til New York, sem er lokaáfangastaður þess.

Alls koma 77 skemmtiferðaskip í sumar og haust til Reykjavíkur, samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum. Síðasta skipið kemur 30. september og fer aftur samdægurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert