Persónuvernd telur ekki ástæðu til að hafa afskipti af því að Smáís, Samtök myndrétthafa á Íslandi, hafi beðið breska fyrirtækið Sky að hafna viðskiptum við þá sem greiða fyrir áskrift að sjónvarpsstöðvum fyrirtækisins með íslenskum greiðslukortum.
Einstaklingur kvartaði til Persónuverndar og taldi að upplýsingar sem hann veitti greiðslukortafyrirtæki ættu að vera trúnaðarmál milli hans og fyrirtækisins og að kortið eigi ekki að nota til að kanna persónuupplýsingar, s.s. um það að viðkomandi sé Íslendingur.
Í svarbréfi segir Persónuvernd, að stofnunin úrskurði í ágreiningsmálum sem upp kunni að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Af kvörtuninni verði ekki ráðið að Smáís hafi unnið með persónuupplýsingar um íslenska korthafa, þ.e. fengið afhentar persónuupplýsingar eða miðlað þeim til annarra. Aðeins liggi fyrir að samtökin hafi óskað eftir því að Sky kanni hverjir greiða fyrir áskrift með íslenskum greiðslukortum og hafni viðskiptum við þá aðila. Það sé því ekki á valdsviði Persónuverndar að skera úr um lögmæti slíks.
Persónuvernd segist hafa í tilefni af erindi kæranda og fjölmörgum fyrirspurnum sem borist hafa stofnuninni símleiðis um þessar aðgerðir, haft samband við íslensku greiðslukortafyrirtækin. Bæði félögin hafi lýst því yfir að þau kæmu ekki að umræddri lokun á íslensk kort hjá Sky. Bent var á að fyrstu sex stafirnir í kortanúmeri beri með sér hver útgáfubankinn er og á þann hátt gæti Sky hugsanlega greint íslensk greiðslukort frá öðrum.
Persónuvernd segir síðan, að þar sem ekki liggi fyrir að kortafyrirtækin hafi miðlað persónuupplýsingum til Sky telji séu ekki talin efni til að hafa afskipti af málinu. Úrskurðarvald um ágreining um lögmæti þeirrar vinnslu persónuupplýsinga, sem eigi sér stað hjá bresku sjónvarpsstöðinni, sé í höndum bresku persónuverndarstofnunarinnar.