„Framboð Íslands núna í miklu uppnámi“

Frá allsherjarþingi SÞ.
Frá allsherjarþingi SÞ. AP

„Ég tel að þessi ákvörðun um að Íslendingar sækist eftir setu í Öryggisráðinu sem ákveðin var af ríkisstjórn og Alþingi fyrir um sjö árum sé núna í miklu uppnámi," segir Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Hjálmar Árnason, formaður þingflokksins, segir að málið hafi ekki verið afgreitt úr þingflokknum og hann segist líta svo á að hin formlega ákvörðun um framboð Íslands hafi enn ekki verið tekin.

Guðni segir að Davíð Oddsson sé efins eða hafi skipt um skoðun varðandi framboð Íslands. Þá hafi Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, hafið fulla baráttu gegn þessari ákvörðun. Guðni minnir á að ríkisstjórnin verði að sækja fjármagn vegna framboðsins til Alþingis.

"Þess vegna verða stjórnarflokkarnir að fara yfir málið og meta stöðuna. Ef það eru efasemdarmenn í Sjálfstæðisflokknum þá eru þeir ekkert síður í Framsóknarflokknum. Efasemdir manna og þar á meðal mínar hafa auðvitað vaxið hvað þetta mál varðar ekki síst þegar veröldin harðnaði. Hún hefur harðnað mikið á síðustu árum. Menn eru auðvitað ekki eins sannfærðir og áður um að það séu hagsmunir lítillar friðelskandi þjóðar að blanda sér í ákvarðanatöku með svo afgerandi hætti. Svo hafa auðvitað aðstæður í þessu máli breyst hvað framboðið varðar; bæði sækir Tyrkland málið stíft af sinni hálfu og staðan kannski orðin sú að fjármagnið er meira sem fer í þessa baráttu en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi. Nú eru menn að tala um einn milljarð króna," segir Guðni.

"Í rauninni kom þetta dálítið á óvart því að það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um framboðið," segir Hjálmar Árnason um yfirlýsingu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

"Málið hefur margsinnis verið rætt í þingflokki framsóknarmanna og tínd hafa verið til rök bæði með og á móti. En þetta er mál sem formlega hefur ekki verið afgreitt út úr þingflokknum," sagði Hjálmar.

Meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert