„Verkefnið er að byggja og reka tónlistarhús með hljómburði í hæsta gæðaflokki og fyrsta flokks aðstöðu fyrir gesti og listamenn, ásamt fyrsta flokks ráðstefnuaðstöðu í ráðstefnumiðstöð." Þannig mæltist Ólafi B. Thors stjórnarformanni Austurhafnar ehf í upphafi blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu í gær, þar sem kynnt var það ferli sem nú hefur leitt til þess að gengið verður til samninga við Portus-hópinn um byggingu og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels við Reykjavíkurhöfn. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist að ári, og að þeim ljúki haustið 2009.
Ólafur lýsti því að ákveðið hefði verið á sínum tíma að bygging og rekstur hússins yrðu einkaframkvæmd, og að jafnframt hefði verið afráðið að gera sérleyfissamning um verkið með aðferðum samningskaupa við að velja framkvæmdaraðila, og taldi þá aðferðafræði hafa gefist mjög vel. Þær aðferðir fólu í sér að eftir að tillögum var skilað inn, var farið yfir þær, þær ræddar og gagnrýndar og hópunum gefinn kostur á að betrumbæta, endurskoða og lagfæra með hliðsjón af þeim þörfum sem Austurhöfn taldi þurfa að uppfylla. Ólafur sagði samvinnu þá sem náðst hefði milli rekstrarmanna, arkitekta, framkvæmdamanna og hönnuða við það ferli, hafa leitt til betri heildarlausna en fengist hefðu með hefðbundnum aðferðum. "Þetta er ekki síst því að þakka, hversu gífurlega vinnu allir umsækjendur í ferlinu lögðu í það. Þeir lögðu allir ómetanlegan skerf til þessa verks, þótt einn standi að endingu uppi sem sigurvegari."
Reykjavíkurborg ákvað að binda ekki deiliskipulag byggingasvæðisins fyrr en ljóst yrði hvernig lokatillögur um byggingarnar litu út, til að gefa hönnuðum þeirra sem mest frjálsræði. Ólafur sagði að nú riði á að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið, með hliðsjón af verðlaunatillögunni, svo hefja mætti framkvæmdir hið fyrsta.
Ólafur lagði áherslu á að með tillögu Portus væri ekki um að ræða byggingu á húsi, heldur stórkostlega uppbyggingu hafnarsvæðisins, sem myndi gjörbreyta ásýnd miðborgarinnar.
Að meðtöldum kostnaði við lóðir og bílastæði hafði Austurhöfn, að sögn Ólafs, gert ráð fyrir að stofnkostnaður við tónlistar- og ráðstefnumiðstöð gæti orðið 8,5 milljarðar. Þær áætlanir voru þó gerðar áður en nokkrar teikningar lágu fyrir til grundvallar því mati, og voru einungis byggðar á forsögn um stærð. Þau tvö tilboð sem komust lengst; tilboð Portus, og tilboð Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og Klasa gerðu ráð fyrir að stofnkostnaður yrði annars vegar 12 milljarðar og hins vegar um 9 milljarðar. Engu að síður byggðust þau bæði á því að árlegt framlag Austurhafnar yrði óbreytt, eða 600 milljónir á ári.
Stefán Baldursson kynnti niðurstöðu matsnefndarinnar og í máli hans kom fram að mjótt hefði verið á munum milli lokatillagnanna, enda hefði valið staðið á milli tveggja glæsilegra lausna. Vinningstillaga Portus-hópsins hlaut hæstu einkunn í fimm af átta matsflokkum, þ.e. byggingarlist, lausn á rekstri bílastæða, fyrir viðskiptaáætlun, fyrir fjárhagslegan og stjórnunarlegan styrk og fyrir metnaðarfulla dagskrá og starfsemisáætlun. „Er það einróma álit matsnefndarinnar að vinningstillagan sé afar glæsileg í alla staði og að byggingin verði áhrifamikið kennileiti í ásýnd Reykjavíkur," sagði Stefán. Hann sagði Portus-hópinn öflugan og fjárhagslega sterkan; tillagan fæli í sér stjórnkerfi sem tryggði listrænan metnað og ágæta aðstöðu fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og væri því í fullu samræmi við öll menningarleg meginmarkmið verkefnisins.
Einkenni Tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar verður án efa listræn hönnun Ólafs Elíassonar og glerhjúpurinn sem mun umlykja byggingarnar þrjár. Hann verður byggður úr sexstrendum sívalningum og þekur yfirborð bygginganna eins og renningur frá norðvestri til suðausturs, en gaflar verða annars að mestu leyti úr gleri og stáli.
Reykjatorg, sem staðsett er milli hótelsins og tónlistar- og ráðstefnuhússins mun einnig vekja athygli, en þar leika vatn og gufa aðalhlutverk í miklu spilverki.
Frá Lækjartorgi og að aðalinngangi hússins liggur ljósá, yfir bílageymslum neðanjarðar, göngustræti sem hleypir birtu að degi til niður í bílakjallarann, en rafljósi upp í borgarlandslagið að nóttu.
Portus lagði fram listræna stefnu með tillögu sinni, en listrænn ráðgjafi er Vladimir Ashkenazy. Lagðar voru fram hugmyndir um hvernig tónleikahaldi gæti orðið háttað í tónlistarhúsinu, en til frekari listrænnar ráðgjafar er umboðsmaður Ashkenazys, Jasper Parrott, sem rekur eina virtustu umboðsskrifstofu tónlistarmanna í heiminum, Harrisson-Parrott í London.
Í ávarpi sínu á blaðamannafundinum óskaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra öllum hlutaðeigandi til hamingju með daginn, og sagði að tónlistarhúsið yrði glæsileg höll tónlistarinnar, en yrði þó ávallt fyrst og fremst að vera hús fólksins.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, sagði þetta stóra og sögulega stund, og byggingarnar verða glæsilegt kennileiti í landslagi borgarinnar. „Miðborgin verður hjarta höfuðborgarinnar, miðstöð menningar og mennta, löggjafarvalds, stjórnsýslu, verslunar, dómstóla og þjónustu. Hún mun styrkjast og ásýndin verða glæstari."
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is