Ragnar Atli Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fasteignar/Klasa, sem átti hina tillöguna að tónlistarhúsi sem matsnefndin hafði til skoðunar, segir að niðurstaða nefndarinnar hafi markað endalokin á löngu ferli.
„Það var mjög jafnt á milli aðila. Við unnum að okkar tillögu eins vel og við gátum og ég sá þeirra tillögu fyrst í dag og hún var mjög glæsileg," segir Ragnar og bendir á að þeir hafi fengið heildareinkunnina 9,7 en Portus 9,8.
Talsverður verðmunur var á tillögunum, tilboð Klasa var metið á um 8,5 milljarða en Portusar á rúmlega 12 milljarða. Ragnar segir að skýringin á þessu sé sennilega sú að tillaga Portusar geri ráð fyrir mun stærra húsi.
„Við vorum bara að fá niðurstöðuna í dag [í gær] frá Austurhöfn ehf. og erum að fara yfir hana og meta hana. En því er ekki að leyna að þetta var mjög nálægt," segir Ragnar.
Sú leið sem farin var, að bjóða verkið út í alútboði, segir Ragnar að hafi reynst vel og megi gjarnan beita henni í meira mæli í framtíðinni. „Fyrir tónlistar- og ráðstefnuhús kom þetta mjög vel út fyrir þá, þetta eru mjög glæsilegar tillögur og mikill metnaður lagður í þetta," segir Ragnar og bendir á að alútboði hafi verið beitt hér á landi áður, t.d. varðandi byggingu Hvalfjarðarganga. Í þessu felist samstarf opinberra og einkaaðila og segir hann að þannig sé hægt að ná því besta úr báðum áttum.
Að Klasa standa Íslandsbanki og Sjóvá en að Fasteign standa sjö sveitarfélög; Fjarðabyggð, Garðabær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Reykjanesbær, Sandgerði, Vestmannaeyjar og Vogar auk Íslandsbanka og Sparisjóðs Mýrasýslu.
Arkitektar Fasteignar/Klasa í samkeppninni voru Schmidt, Hammer & Lassen K/S, Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar, Bernard Engle & Planners og Arrowstreet en verkfræðiráðgjafar Línuhönnun og VSÓ Ráðgjöf. Ístak og E.Phil & Søn voru stýriverktakar.