Gullnir lúðrar eða músíkfley

Tónlistarhúsið einkennist af glerhjúpnum sem mótaður er eins og fjórar …
Tónlistarhúsið einkennist af glerhjúpnum sem mótaður er eins og fjórar lúðurbjöllur. Ásýndin minnir einnig á skip. Aðalarkitektar voru Schmidt, Hammer og Larsen.

Eignarhaldsfélagið Fasteign og Klasi voru höfundar tillögu sem varð í öðru sæti í vali Austurhafnar á byggingar- og rekstraraðila Tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar við höfnina.

Fasteign er fjárfestingarfélag í eigu Íslandsbanka og nokkurra sveitarfélag, en Klasi fasteignafélag í eigu Íslandsbanka. Samvinna var höfð við ráðgjafa á Íslandi, Danmörku, Bretlandi og í Bandaríkjunum, en formlegir samstarfsaðilar voru danska arkitektastofan Schmidt, Hammer og Lassen, aðalarkitektar bygginganna; Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar, sem sá um heildarskipulag og samræmingu verkefnisins, Arrowstreet arkitektastofan, sem sá um skipulag og innri virkni hótelbyggingarinnar, Bernard Engle arkitektastofan í London, sem skipulagði útfærslu verslana á svæðinu, en var einnig til ráðgjafar um heildarskipulag; verkfræðistofurnar Línuhönnun og VSÓ ráðgjöf, sem önnuðust verkfræðilega hönnun, og verktakafyrirtækin E.Phil & Søn og Ístak sem sjá áttu um stýriverktöku í framkvæmdinni.

Listrænir ráðgjafar hópsins voru Howar Raynor, framkvæmdastjóri alþjóðlegu listahátíðarinnar í Manchester, listaráðsins á NV England, Urban Experience ltd í Mancherster og Manchester City Centre Mamagement Company, - og Karsten Witt, sem rekið hefur Tónlistarhúsið í Vínarborg, stjórnað Deutsche Gramophone útgáfufyrirtækinu og South Bank Centre í London.

Menningartorg fyrir menningarviðburði utandyra

Tillaga hópsins gerði ráð fyrir mikilli uppbyggingu á svæðinu með ýmiss konar menningarstarfsemi, smáverslun, íbúðar- og skrifstofubyggingum, með starfsemi sem drægi fólk að svæðinu, auk opinna svæða og torga; - allt til að efla líf í miðborginni. Gert var ráð fyrir góðum tengslum við Kvosina og aðra hluta hafnarsvæðisins, með göngugötum og almenningssvæðum og Menningartorgi, sem hefði orðið vettvangur ýmissa viðburða í borgarlífinu.

Geirsgata hefði orðið breiðgata að erlendri fyrirmynd ef tillagan hefði náð fram að ganga, með góðum tengingum milli svæðanna norðan og sunnanmegin við hana, sem hefðu þann kost að draga úr umferðarhraða, án þess að raska flæði akandi umferðar.

Tónlistarhús Fasteignarhópsins hefði orðið vel sýninlegt úr miðbænum, og með miklu útsýni yfir höfnina og fjöllin í norðri. Menningartorgið var ráðgert vestan aðalbygginganna, með útisviði, kaffihúsum, verslunum og veitingastöðum. Í tillögunni er hótelið staðsett við höfnina, með verslunum á jarðhæð og góðum tengingum fyrir gangandi vegfarendur jafnt sem bílaumferð við gamla miðbæinn. Skipulagið gerði ráð fyrir lágreistari byggingum næst gamla miðbænum, sem hækkuðu jafnt og þétt eftir því sem norðar drægi og tækju þannig mið af byggðinni sem fyrir er, þar sem hið nýja og gamla mætast. Enn nær höfninni var gert ráð fyrir opnara svæði og meira afgerandi byggingum.

Blésu þeir á sönglúðra...

Tónleika- og ráðstefnuhús Fasteignarhópsins er sérstakt og áhrifamikið útlits, en við hönnun þess var leitað í fjölbreytni og andstæður í íslenskri náttúru og í tónlistina. Einfaldur glæsileiki var hafður að leiðarljósi við ytra útlit og bogdadregnar línur innviðanna.

Ytra útlit hússins minnir á bjöllur fjögurra lúðra, sem standa í hnapp undir þakplötunni. Þegar horft er á bygginguna frá hafi, minnir hún líka á risavaxið skipsstafn. Undir stærstu bjöllunni er stóri tónleikasalurinn, sem rúmar 1.800 manns í sæti. Minni lúðrarnir eru 750 sæta ráðstefnusalurinn, nyrst , 450 sæta tónleikasalur, sem tengdur er þeim stóra, og minnsti lúðurinn blæs yfir stórum hringstiga, austast í rýminu. Stórt miðrými nýtist fyrir uppákomur af ýmsum toga, en byggingin hýsir einnig ýmiss konar minni herbergi og vistarverur, með þeirri aðstöðu sem húsið krefst. Mikið er lagt í innri umgjörð og sveigjanlega uppröðun, og státar hver salur samkvæmt tillögunni, af besta tæknibúnaði sem völ er á til að tryggja að húsið nýtist best.

Glerhjúpurinn sem myndar lúðrana fjóra er íburðarmikill og gefur byggingunni sinn sérstæða svip, með formi sínu og lögun. Innri veggir hússins endurvarpa síbreytilegri dagsbirtu hann og skapa þar með breytilega ásýnd hússins, sem tekur breytingum í litum og ljósi eftir tíma dags og árstíðum. Í tillögu hópsins var gert ráð fyrir því að einnig væri hægt að varpa mismunandi ljósum á veggina innan hjúpsins, til að skapa sérstakt andrúmsloft og sjónræn áhrif.

Hærri einkunn fyrir skipulag og hönnun

Við heildarhönnun svæðisins var leitast við að nýta sem best það skipulag sem fyrir er á svæðinu. Þar má til dæmis nefna Lækjartorg, sem hefði fengið meira vægi sem miðpunktur bæjarins en nú er, og Geirsgötu, sem hefði orðið breiðstærti með tilheyrandi möguleikum á verslun og þjónustu í framtíðinni. Þess má geta að tillaga Fasteignar og Klasa fékk hærri einkunn matsnefndar en vinningstillagan fyrir hönnun og heildarskipulag, en aðrir þættir sem mældir voru, voru styrkur og hæfni bjóðenda, fyrirkomulag bílastæða, viðskiptaáætlun, þjónusta og aðstaða fyrir Sinfóníuhljómsveitina og aðra listamenn, stjórnunarfyrirkomulag og dagskráráætlanir.
Grunnflötur salanna þriggja. Ráðstefnusalur nyrst, kammertónlistarsalur til suðvesturs og stóri …
Grunnflötur salanna þriggja. Ráðstefnusalur nyrst, kammertónlistarsalur til suðvesturs og stóri salurinn til suðausturs. Í norðausturhorni svæðisins er hringstiginn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert