Sér fyrir endann á aldargömlum hugmyndum

Tæp öld er liðin frá því farið var að tala um byggingu tónlistarhúss í Reykjavík. Árið 1923 reis fyrsta tónlistarhús borgarinnar, en það var Hljómskálinn. Húsnæðið var fyrst og fremst ætlað sem æfingahúsnæði fyrir lúðrasveitir borgarinnar, en síðar meir varð skálinn æfingahúsnæði Hljómsveitar Reykjavíkur og fyrsta aðsetur Tónlistarskólans í Reykjavík. Ekki var gert ráð fyrir tónleikahaldi í Hljómskálanum.

Um 1940 var farið að tala um byggingu tónlistarhúss af alvöru - húss til flutnings tónlistar af ýmsu tagi. Í útvarpserindi það ár talaði Páll Ísólfsson dómorganisti um nauðsyn þess að byggja menningarhöll er hýsti þjóðminjasafn, myndasafn og hefði í það minnsta tvo tónleikasali, auk þess sem listaskólar gætu starfað í höllinni. Strax þá var farið að efna til tónleika til styrktar byggingu tónlistarhúss.

Tónlistarfélagið í Reykjavík tilkynnti árið 1958 að það hygðist ráðast í byggingu tónlistarhallar. Félagið fékk úthlutað lóð á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, en ekkert varð úr frekari áformum. Árið 1961 var aðsetur Sinfóníuhljómsveitar Íslands flutt í Háskólabíó, sem þá var nýbyggt. Frá upphafi þótti hljómburður bíósins slæmur fyrir sinfóníska tónlist og ráðist var í miklar endurbætur á sviði bíósins í þeim tilgangi að freista þess að bæta hljómburð. Þær endurbætur skiluðu ekki tilætluðum árangri og enn var talað um byggingu tónlistarhúss.

Árið 1970 voru enn uppi fyrirætlanir í Tónlistarfélaginu í Reykjavík um að byggja tónlistarhöll við Sigtún, með þremur tónleikasölum og aðstöðu fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík. Gerðar voru teikningar og líkan af fyrirhugaðri tónlistarhöll, en ekkert varð úr framkvæmdum.

Upp úr 1980 fór umræðan um byggingu tónlistarhúss enn af stað og 1983 voru Samtök um byggingu tónlistarhúss stofnuð, með það að markmiði að stuðla að byggingu hússins. Tveimur árum síðar fengu samtökin úthlutað lóð fyrir byggingu hússins í Laugardal. Samtökin efndu strax til samkeppni milli arkitekta um teikningar að tónlistarhúsi og ári síðar, 1986, var tillaga Guðmundar Jónssonar valin. Guðmundur lauk við að fullhanna uppdrætti að húsinu árið 1988.

Árið 1986 spunnust mikil blaðaskrif og deilur um það hvort gera ætti ráð fyrir flutningi óperutónlistar í tónlistarhúsinu, deilur sem staðið hafa allt til dagsins í dag. Sátt var um að húsið yrði fyrst og fremst heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, enda sættu hljómburður og aðstaða til tónleikahalds í Háskólabíói stöðugri gagnrýni.

Samtök um byggingu tónlistarhúss óskuðu haustið 1992 eftir viðræðum við borgaryfirvöld um nýja lóð fyrir tónlistarhúsið, og þá við Ingólfsgarð við Reykjavíkurhöfn. Þá voru uppi hugmyndir um að tengja tónlistarhús fyrirhugaðri byggingu ráðstefnumiðstöðvar við höfnina. Enn var þó allt með kyrrum kjörum og ekkert bar á framkvæmdum.

Pólitísk samstaða um byggingu tónlistarhúss

Í mars 1994 kom fram í kosningastefnuskrá R-listans í Reykjavík að það yrði skoðað sem eitt af forgangsverkefnum í menningarmálum að byggja tónlistarhús í borginni og að listinn myndi sjá til þess að farið yrði af stað á kjörtímabilinu í samvinnu við ríkið og nágrannasveitarfélög. Þar með tóku vinstrimenn undir ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá árinu áður um að flokkurinn styddi áform um byggingu tónlistarhúss, og vonir um pólitíska samstöðu um málið glæddust. Enn leið þó tíðindalítið ár. Í maí 1995 sagði Björn Bjarnason menntamálaráðherra í Morgunblaðsviðtali að taka yrði ákvörðun um tónlistarhús á kjörtímabilinu og reyna að koma því á einhvern rekspöl. Björn sagði eðlilegt að bygging hússins yrði samstarfsverkefni margra öflugra aðila. Síðar um sumarið lýsti Vladimir Ashkenazy, píanóleikari og hljómsveitarstjóri, áhyggjum sínum af deyfð í málefnum tónlistarhússins og bauðst til að leggja hönd á plóginn. Næsta vetur, eða í febrúar 1996, var verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins fyrir kjörtímabilið sett fram og þar kom fram að tekin yrði ákvörðun á kjörtímabilinu um það hvort reisa skyldi tónlistarhús.

Til tíðinda dró í júní 1997 þegar nefnd menntamálaráðherra um tónlistarhús skilaði áliti sínu, þar sem mælt var með því að byggt yrði tónlistarhús í Reykjavík. Lagðir voru fram þrír kostir um staðsetningu hússins: í Laugardal, við Hótel Sögu eða í Öskjuhlíð. Tveir síðarnefndu kostirnir gerðu ráð fyrir því að tónlistarhúsið yrði reist í tengslum við ráðstefnuaðstöðu. Nefndin gerði ráð fyrir því að tveir tónleikasalir yrðu í húsinu, fyrir 1.200-1.300 manns og fyrir 300-400 manns. Ekki var gert ráð fyrir óperuflutningi í húsinu, þar sem Íslenska óperan taldi stærri salinn of stóran fyrir íslenskar aðstæður. Kostnaður var áætlaður að lágmarki 1.550 milljónir króna. Mánuði síðar samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu menntamálaráðherra um að fá sérfræðilegt mat á kostum og göllum þeirra þriggja kosta sem lágu fyrir um byggingu tónlistarhússins. Borgarstjóri talaði fyrir því að tónlistarhúsið risi í miðborginni. Í tillögum var gert ráð fyrir tveimur tónleikasölum, þeim stærri fyrir um 1.100 manns og hinum helmingi minni. Nefnd samgönguráðherra skilaði tillögum sínum í júní 1998 og lagði til að ráðstefnumiðstöð yrði byggð í tengslum við tónlistarhúsið og að æskileg staðsetning væri í miðborg Reykjavíkur. Vonir um að málin væru í föstum farvegi rættust þegar menntamálaráðherra tilkynnti haustið 1998 að áætlanir um byggingu tónlistarhúss væru langt komnar og að á vegum ráðuneytisins væri verið að leggja síðustu hönd á stórhuga tillögur um ný heimkynni Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Ríki og borg sameinast um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss

5. janúar 1999 urðu loks þau tímamót að ríki og borg tilkynntu að þau myndu í sameiningu beita sér fyrir byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í miðborg Reykjavíkur, en nánari staðsetning var óákveðin. Áætlaður byggingarkostnaður var sagður 3,5-4 milljarðar króna. Gert var ráð fyrir tveimur sölum, 1.200-1.300 manna tónleikasal og 300-400 manna sal sem fyrst og fremst var ætlaður ráðstefnuhaldi. Nefnd sem skipuð var fulltrúum menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar var falið að vinna að samkomulagi um fjármögnun, framkvæmdatilhögun og kostnaðarskiptingu og leita samstarfsaðila um verkefnið. Í mars 1999 skipuðu Reykjavíkurborg og menntamálaráðuneyti svo fulltrúa í fyrrgreinda samstarfsnefnd um ráðstefnu- og tónlistarhús, undir forystu Ólafs B. Thors. Nefndinni var meðal annars ætlað að vinna að samkomulagi um fjármögnun hússins, tilhögun og kostnaðarskiptingu. Um haustið lagði borgin nefndinni til 4,5 milljónir króna og gerði ráð fyrir að ráðuneytin þrjú legðu hvert til jafnmikið fé, en áætlaður kostnaður við störf nefndarinnar var metinn 18 milljónir króna. Í mars 2000 samþykkti Hafnarstjórn Reykjavíkur tillögu um afmörkun lóðar fyrir byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss og hótels við Austurbakka Reykjavíkurhafnar. Þar með var loks endanlega búið að ákveða staðsetningu hússins.

13. júní 2001 var hugmyndasamkeppni um skipulag miðborgarinnar kynnt. Borgarstjóri sagði þá að stefnt væri að því að hefja framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhús árið 2003 og að þær tækju 2-3 ár. Útboð var fyrirhugað á framkvæmdunum og framlag ríkis og borgar áætlað 4,5 milljarðar, en heildarkostnaður 10 milljarðar. Áformað var að stærri tónleikasalur rúmaði 1.500 manns og minni tónleikasalur 450 manns. Nú var gert ráð fyrir þriðja sal sem rúmaði 750 manns, fyrst og fremst til ráðstefnuhalds.

Í janúar 2002 voru úrslit í hugmyndasamkeppni um skipulag lóðar tónlistar- og ráðstefnuhúss kynnt. 44 tillögur bárust og varð hugmynd Guðna Tyrfingssonar, Lotte Elkjær, Mikels Fischers-Rasmussens og Lasse Grosböl hlutskörpust. Í Morgunblaðsviðtali nokkrum dögum síðar sagði Vladimir Ashkenazy að engin ástæða væri til að hafna því að tónlistarhúsið gæti orðið vettvangur bæði hljómsveitarleiks og óperuflutnings og að það fyrirkomulag gæti reynst ódýrara fyrir þjóðina þegar upp væri staðið. Skömmu síðar tilkynnti menntamálaráðherra að salur tónlistarhússins yrði þannig úr garði gerður að óperuflutningur yrði þar mögulegur.

Samningur undirritaður og einkahlutafélag stofnað

11. apríl 2002 náðist sá stóri áfangi að samningur um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar var undirritaður af fulltrúum ríkis og borgar. Stefnt var að einkaframkvæmdarútboði í árslok og að framkvæmdir gætu hafist árið 2004. Áætlaður heildarkostnaður var sagður tæpir 6 milljarðar króna. Ríkið greiddi 54% og borgin 46%. Gert var ráð fyrir 1.500 manna tónleikasal, 750 manna ráðstefnusal og 450 manna æfinga- og tónleikasal, eins og kynnt hafði verið í júní 2001. Auk þess var gert ráð fyrir aðstöðu listamanna, skrifstofum, 16 smærri fundasölum og þjónusturými, alls um 15.000 m².

Í febrúar 2003 fékk menntamálaráðherra heimild ríkisstjórnar til að ganga frá samningum við Reykjavíkurborg um stofnun einkahlutafélags sem sjá myndi um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss. Mánuði síðar heimilaði borgarráð svo borgarstjóra að ljúka frágangi samninga við ríkið um stofnun einkahlutafélagsins. Austurhöfn ehf. var stofnuð sumarið 2003, einkahlutafélag ríkis og borgar, en eignarhluti ríkisins var 54% og borgarinnar 46%. Ólafur B. Thors varð stjórnarformaður og Stefán Hermannsson, fyrrum borgarverkfræðingur, var ráðinn framkvæmdastjóri. Í apríl 2004 auglýstu Ríkiskaup forval á Evrópska efnahagssvæðinu vegna byggingar, reksturs og hönnunar tónlistar- og ráðstefnuhúss, sem og hótels, við höfnina í Reykjavík.

Í gær lauk síðan svokölluðu samningskaupaferli, þar sem tilkynnt var að tillaga Portus-hópsins hefði orðið hlutskarpari þeirra tveggja tillagna sem komust í lokaúrslit.

Þessi samantekt er byggð á ítarlegri úttekt á sögu hugmynda um byggingu tónlistarhúss í Reykjavík, er birtist í Morgunblaðinu í mars og apríl 2003.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert