Gert er ráð fyrir að heildargjöld vegna háskólastarfsemi hækki um rúma 2 milljarða króna á rekstrargrunni á næsta ári miðað við fjárlög yfirstandandi árs og verði 15,2 milljarðar króna. Þar af er gert ráð fyrir að sértekjur standi undir 2,5 milljarða gjöldum sem er 564 milljóna króna hækkun frá yfirstandandi árum.
Gjöld að frádregnum sértekjum nema samtals 12,7 milljörðum króna. Þar af er um helmingur, eða 6,4 milljarðar útgjöld vegna Háskóla Íslands.
Gert er ráð fyrir að útgjöld til kennslu í háskólum aukist töluvert og einnig framlög til rannsóknarmála og tengdra verkefna.
Þá gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir því að heildarútgjöld vegna framhaldsskóla verði 14,8 milljarðar króna og hækki um 1,53 milljarða frá fjárlögum þessa árs eða um 11,5%.