Hreinn lánsfjárjöfnuður jákvæður um 98 milljarða á árinu

Reiknað er með að á árinu 2005 verði hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs jákvæður um 98,1 milljarð króna í stað 10,1 milljarðs eins og áætlað var í fjárlögum ársins. Breytingin er 88 milljarðar króna til hækkunar og skýrist aðallega af 66,7 milljarða króna söluandvirði Landssíma Íslands, sem greitt var fyrr í haust og hins vegar af því að horfur eru á að handbært fé frá rekstri verði 20,4 milljarðar króna en það er 21,3 milljarða króna betri útkoma en reiknað var með í fjárlögum.

Fram kemur, að ef söluhagnaður af Landssímanum sé frátalinn, sé útlit fyrir að á greiðslugrunni verði tekjur 33,2 milljörðum króna umfram áætlun fjárlaga en gjöldin tæpum 12 milljörðum umfram áætlun. Áformað sé að ráðstafa lánsfjárafganginum með því að greiða skuldir ríkissjóðs niður um 57,7 milljarða króna, greiða 4 milljarða króna inn á skuldbindingar ríkisins hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og styrkja stöðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands um 36,4 milljarða króna.

Áætlað er að heildarlántökur A-hluta ríkissjóðs, fyrirtækja í B-hluta, sjóða í C-hluta og Landsvirkjunar muni nema 124,4 milljörðum króna á árinu 2006. Heildarafborganir af teknum lánum eru áætlaðar 56,7 milljarðar króna og hrein lánsfjárþörf þessara aðila nemur því 67,7 milljörðum króna. Reiknað er með að ríkissjóður taki ekki fé að láni á árinu en greiði engu að síður niður skuldir um 6,6 milljarða króna.

Lántökur fyrirtækja og sjóða í eigu ríkisins eru áætlaðar 124,4 milljarðar króna en afborganir tekinna lána 50,1 milljarður. Nettólántaka þessara aðila er því áætluð 74,3 milljarðar króna en það er 71,6 milljörðum króna hærri nettólántaka en gert er ráð fyrir í horfum fyrir árið í ár. Munar þar mest um 59,8 milljarða króna aukningu í nettólántöku hjá Íbúðalánasjóði, aðallega vegna verulega minni afborgana af teknum lánum, og 7,3 milljarða aukningu hjá Landsvirkjun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka