Bensínstyrkur elli- og örorkulífeyrisþega felldur niður

Heilbrigðisráðherra mun leggja fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um að uppbót á elli- og örorkulífeyri og svonefndur örorkustyrkur vegna reksturs bifreiðar (oft nefndur bensínstyrkur) verði felld niður frá og með 1. janúar næstkomandi en styrkurinn er áætlaður 720 milljónir kr. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Af þessum fjármunum er á hinn bóginn lagt til að 100 milljónir verði millifærðar til að efla starfsendurhæfingu sjúkratrygginga og 393 milljónir til að hækka tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. 226 milljónir verði notaðar til að mæta hagræðingarkröfu, eins og það er orðað í greinargerð frumvarpsins.

Í frumvarpinu kemur fram að útgjöld bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð munu lækka að raungildi um 581,8 milljónir kr. að raungildi á næsta ári frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Bætur lífeyristrygginga almannatrygginga eru áætlaðar 34,2 milljarðar á næsta ári og aukast að raungildi um 1.488 milljónir á milli ára, skv. fjárlagafrumvarpinu. Meginskýringin á aukningunni er fjölgun bótaþega en þessi fjárlagaliður hækkar um 1.094 millj. kr. af þeim sökum. Heildarútgjöld sjúkratrygginga eru áætluð 15.581 millj. kr. á næsta ári og hækka um 575 milljónir á milli ára að raungildi og vega þar þyngst áhrif gengis á lyfjakostnað og kaup á erlendri sjúkrahússþjónustu.

Þá kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að næstu fjárveitingar í tryggingamálum aukast um 30 milljónir vegna aukinna framlaga til að efla starfsendurhæfingu og 8 milljónir vegna framlaga sem varið er til að efla tannlæknaþjónustu barna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka