Segir fjárlagafrumvarpið bregða upp sýndarveruleika

Samfylkingin segir að ríkisstjórnin bregði upp sýndarveruleika í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ári þar sem stöðugleiki ríki í efnahagsmálum. Raunveruleikinn sé allt öðru vísi og blikurnar hrannist upp.

Þannig stefni viðskiptahalli í 14% af landsframleiðslu, sem sé sögulegt hámark. Stýrivextir Seðlabankans stefni vel yfir 10%. Útflutningsgreinar séu í vanda. Greiningardeildir banka spái allt að 8% verðbólgu og gengissigi upp á 15-25%. Öll met hafi verið slegin í skuldasöfnun sem leggist þyngst á fyrirtæki, heimili og ungt fólk. Forsendur kjarasamninga séu að bresta. Þessar staðreyndir gefo hvorki mynd af aðhaldssamri né ábyrgri fjármálastjórn og í raunveruleikanum er stöðugleikinn í uppnámi.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir, að alvarlegur veikleiki í fjárlagafrumvarpinu felist í því að afgangur af fjárlögum er þrátt fyrir stóraukna veltu aðeins 1,4% af landsframleiðslu. Tekjuafgangurinn hefði þurft að vera mun meiri, eða um 3% af landsframleiðslu, til að slá á þenslu sem rekja megi til ákvarðana ríkisstjórnarinnar.

Þá segir flokkurinn, að reynslan sýni að áform um afgang af ríkisjóði gangi sjaldnast eftir hjá þessari ríkisstjórn. Á veltuárunum 2000-2004 hafi afgangurinn samtals átt að nema 82 milljörðum en endað í 8 milljarða halla. Í þessu ljósi beri því að taka spá ríkisstjórnarinnar um 14 milljarða tekjuafgang 2006 með varúð.  

Annar alvarlegur veikleiki í fjárlagafrumvarpinu birtist í vaxandi ójöfnuði og gliðnun milli þjóðfélagshópa. Þetta komi skírast fram í breytingum á tekjuskattkerfinu. Þær færi hálaunafólki gríðarlegar upphæðir í skattalækkanir á sama tíma og venjulegt fólk fái margfalt minna.

Nefnd eru nokkur dæmi, svo sem að í fjölmennasta hópi einstæðra foreldra fái viðkomandi foreldri um 10.000 krónur í lækkun á mánuði sem jafngildi innihaldi einnar innkaupakerru. Meðalforstjóri með milljón á mánuði fái nífalt meira eða ríflega 90 þúsund á mánuði.

Þá fái hálaunahjón með um 960.000 króna í tekjur á mánuði um 66.000 krónur í skattalækkun á mánuði eða tæplega 800.000 krónur á ári. Í fjölmennasta hópi millitekjuhjóna fái fólk rúmlega helmingi lægri upphæð sem rétt dugi fyrir skólagjöldum eins mánaðar í leikskóla.

„Ójafnaðarstefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum speglast best í eftirfarandi: Þegar allar breytingar hennar á skattkerfinu frá 1995 eru lagðar saman kemur í ljós að þær færa milljón króna manninum mánaðarlaun í vasann á ári - meðan ellilífeyrisþeginn borgar mánaðarlaunum meira í skatt. Samfylkingin taldi miklu réttlátara að bæta fremur hag láglaunafólks og barnafólks með lækkun matarskatts, óbreyttum vaxtabótum og hækkun barnabóta og með tillögum hennar um afkomutryggingu til að bæta kjör bótaþega," segir í tilkynningunni.

Þar er einnig gagnrýnt harðlega, að til standi að afnema bensínstyrk til hreyfihamlaðra en það jafngildi 300 milljóna króna niðurskurði til hreyfihamlaðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka