Opinber stjórntæki halda ekki aftur af verðbólgu

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir jákvætt að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 sé heldur dregið úr útgjöldum ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu. Á hinn bóginn virtist ljóst að miðað við hvernig stjórntækjum hins opinbera sé beitt muni þau ekki megna að halda aftur af heildareftirspurn og verðbólguþrýstingi. "Þannig að það blasir við að verðbólga verður óviðunandi há næstu árin," sagði hann í samtali við Morgunblaðið.

Hannes sagði að það væri alvarlegt hversu mikill munur væri á efnahagsspám Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins. Í þeim birtist mjög mismunandi sýn á það hvort hér væri ofþensla eða ekki. Seðlabankinn teldi að hér væri meiri spenna en nokkru sinni fyrr en að mati fjármálaráðuneytisins væri efnahagslífið því sem næst í jafnvægi. "Þessar tvær helstu efnahagsstofnanir þjóðarinnar líta gjörólíkum augum á ástand efnahagsmála og þar af leiðandi á þörfina fyrir aðhald af hálfu opinberra aðila. Seðlabankinn telur að það þurfi miklu meira aðhald en í uppsveiflunni árið 2000 en ráðuneytið telur að þörfin sé minni," sagði hann. Ef ráðuneytið hefði rétt fyrir sér væri ljóst að Seðlabankinn væri á villigötum með sína vaxtastefnu sem hefði leitt til hágengis sem plagaði fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni.

Hannes sagði sérkennilegt að fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir að verðbólga yrði 4% eða hærri á sama tíma og í gildi væri samningur milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um að bankinn héldi verðbólgunni í kringum 2,5%. Ríkisstjórnin virtist hins vegar ekki ætla að aðstoða bankann við að ná fram markmiðum sínum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert