Tekjuafgangur helmingi minni en á síðasta óstjórnarskeiði

Áætlaður tekjuafgangur ríkissjóðs vegna ársins 2006 sem hlutfall af landsframleiðslunni er um helmingi minni en hann var á árunum 1999 og 2000 þegar hagstjórnin fór síðast úr böndunum. Í stað þess að nota ríkisfjármálin til að draga úr þenslu og ójafnvægi í efnahagslífinu hefur stjórn ríkisfjármála orðið til að auka hana enn frekar. Þetta segir Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands.

"Frumvarpið er mikil vonbrigði. Það er ekki það aðhald í frumvarpinu sem kallað hefur verið eftir. ASÍ, Seðlabankinn og fleiri hafa bent á að það skortir á aðhald í ríkisfjármálum og að afgangur ríkissjóðs sé að mestu leyti vegna hagsveiflunnar en ekki vegna þess að aðhalds sé gætt. Það er verulegt áhyggjuefni að aðhaldið í ríkisfjármálunum skuli ekki vera meira í því þensluástandi sem við erum í núna," sagði Ólafur Darri í samtali við Morgunblaðið í gær. Við núverandi aðstæður ætti ríkið að beita ríkisfjármálum til að draga úr þenslu í stað þess að auka hana með óskynsamlegri fjármálastjórn.

Varðandi boðaðar skattalækkanir sagði Ólafur Darri að þar sem ríkisstjórnin treysti sér ekki til að skera niður útgjöld á móti skattalækkunum, ykju þær á verðbólguna sem aftur myndi éta upp áætlaðan ávinning launafólks af lækkuninni. "Við höfum dregið það í efa að skattalækkun á þessum tíma sé skynsamleg," sagði hann. Það vekti athygli í þessu samhengi að fjármálaráðuneytið spáir því að verðbólgan næstu tvö árin verði um 4%, sem er langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Handahófskenndur niðurskurður

Spurður um áhrif fjárlagafrumvarpsins á kjarasamninga sagði Ólafur Darri að frá því að skrifað var undir kjarasamninga í mars 2004 hefði verðbólgan að jafnaði verið um 3,5%. Í samningunum var hins vegar gengið út frá þeirri forsendu að hún yrði sem næst 2,5% og því stefnir nú allt í að þessi forsenda samninganna sé að bresta. Fjárlagafrumvarpið hefur þó ekki bein áhrif á það hvort forsenduákvæðin bresti. Ólafur Darri sagði þó ljóst að fjárlagafrumvarpið auðveldaði samningsaðilum ekki þá vinnu sem framundan væri varðandi það hvernig brugðist yrði við forsendubrestinum.

Miðstjórn ASÍ hittist í dag og mun m.a. ræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka