Þóknum fjárfestingarbankans Morgan Stanley fyrir ráðgjöf við sölu á Landssíma Íslands var 696 milljónir króna. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga, sem lagt var fram á Alþingi í dag.
Í frumvarpinu er lagt til að veitt verði 750 milljóna króna fjárveiting vegna kostnaðar við einkavæðingarverkefni á árinu. Er áætlað að kostnaðurinn í heild verði 777 milljónir og þar munar mestu um þóknun Morgan Stanley.
Söluverð Símans var 66,7 milljarðar króna. Í fjáraukalagafrumvarpinu kemur fram, að lögum samkvæmt sé lagður 10% fjármagnstekjuskattur á hagnað af sölunni. Söluhagnaðurinn sé mismunurinn á söluverðmætinu, um 66,7 milljörðum, og bókfærðu verðmæti, um 9,2 milljörðum, þ.e. mismunurinn nemur 57,5 milljörðum. Er sótt um heimild fyrir fjármálaráðuneytið til að greiða fjármagnstekjuskatt af þessari upphæð en á móti eru tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti hækkaðar um sömu upphæð samkvæmt frumvarpinu.
Fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2005