Um 1.500 manns hafa brugðist við neyðarkalli vegna jarðskjálftanna í Pakistan og lagt fram 1.000 krónur hver til hjálparstarfsins með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins, 907-2020. Þannig hefur safnast um ein og hálf milljón króna á þeim sólarhring sem er liðinn síðan söfnunin hófst.
Alþjóða Rauði krossinn hefur einsett sér að aðstoða 50.000 fjölskyldur, eða um 250.000 manns, á næstu fjórum mánuðum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Mikil neyð ríkir á hamfarasvæðunum í fjallahéruðum Pakistans og gífurleg þörf er fyrir matvæli, teppi og skjólefni af ýmsu tagi. Talsverðar birgðir eru á staðnum en það sem ekki er til í vöruhúsum Rauða krossins verður keypt í Pakistan.
Á vegum Rauða kross félaganna í Noregi og Finnlandi er verið að senda færanlegt sjúkrahús til Pakistan. Sjúkrahúsið er í tjöldum og á að geta annað spítalaþjónustu á svæði þar sem 200.000 manns búa.
Hjálparstarfið fer fram við afar erfiðar aðstæður. Skriður hafa víða eyðilagt vegi og hættan á frekari skriðum skapar hættu við vegaviðgerðir. Á tímabili komust þyrlur ekki með hjálpargögn upp í fjöllin vegna rigningarveðurs.
Víða á skjálftasvæðunum er mikill skortur á lyfjum og margs konar hjúkrunargögnum. Hjálparstarfið hefur enn ekki náð til margra afskekktra þorpa. Stjórnvöld í Pakistan segja nú að 23.000 manns hafi látið lífið í skjálftanum þar í landi.