Borgarstjórn leggur 5 milljónir til hjálparstarfs í Asíu

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fimm milljónir króna til hjálparstarfs á því svæði sem verst varð úti í jarðskjálftanum í Kasmírhéraði 8. október sl. Verður Rauða krossi Íslands falin ráðstöfun fjárins.

Í greinargerð með tillögu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, borgarstjóra, segir að hjálparstarf á svæðinu sé afar erfitt, jarðskjálftasvæðið sé mjög víðáttumikið og erfitt yfirferðar. Ástandið hafi versnað mjög að undanförnu vegna óveðurs og kulda, tala látinna hækkar stöðugt og tugir þúsunda hafi látist. Hátt í fjórar milljónir manna hafi misst heimili sín og búi nú við illan kost þar sem vetrarkuldar sæki að á hálendi og í fjalladölum. Samgöngur séu erfiðar og enn hafi ekki tekist að ná til á tugþúsunda barna. Talið sé að fjöldi barna sé í bráðri hættu og hafi hjálparstofnanir sent út neyðarkall til alþjóðasamfélagsins þar sem bæði skorti hjálpargögn og fjármagn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert