Fjárlagaafgangur eykst um 5,4 milljarða og verður 19,6 milljarðar

Afgangur á fjárlögum verður tæpir 20 milljarðar samkvæmt tillögum meirihluta …
Afgangur á fjárlögum verður tæpir 20 milljarðar samkvæmt tillögum meirihluta fjárlaganefndar. mbl.is/Kristinn

Samkvæmt breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár aukast tekjur ríkissjóðs um 7,2 milljarða, miðað við fjárlagafrumvarpið og útgjöld aukast um tæpa 2 milljarða króna. Þetta þýðir, að tekjuafgangur eykst um 5,4 milljarða króna og verður 19,4 milljarðar í stað 14,2 milljarða eins og fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir. Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið verður á Alþingi á morgun.

Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, sagði við Fréttavef Morgunblaðsins, að í heild væri þessi niðurstaða vel viðunandi og nærri léti að afgangurinn svaraði til 2% af landsframleiðslu, sem auðvitað væri afar gott.

Aðalástæðan fyrir því að tekuáætlun fjárlaga hækkar er að gert er ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila skili um 3,5 milljörðum króna meiri tekjum á næsta ári en áður var gert ráð fyrir. Sagði Magnús, að m.a. þessi áætlun hefði m.a. verið endurskoðuð eftir að álagning skattstjóra á þessu ári lá fyrir nýlega. Þá er gert ráð fyrir að vörugjöld af nýjum bílum skili 1,5 milljarða meiri tekjum en áður var talið og vaxtatekjur ríkissjóðs verði nærri 1,3 milljarði hærri.

Gerðar eru tillögur um aukin útgjöld í mörgum liðum sem flestir eru tiltölulega lágir. Einnig eru tillögur um lækkun útgjalda í tilteknum liðum miðað við upphaflega fjárlagafrumvarpið.

Mest hækka útgjöld menntamálaráðuneytis miðað við fjárlagafrumvarpið, eða um 690 milljónir króna en Magnús sagði að um væri að ræða ýmsa smærri liði varðandi menningarmál, safnamál, húsafriðunarmál o.fl. M.a. er gert ráð fyrir því að framlag til styrkja vegna kvikmyndagerðar hækki um 65 milljónir króna en stefnt er að gerð nýs samkomulags við samtök í íslenskri kvikmyndagerð um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Gildandi samkomulag er frá árinu 1998. Þá er gerð tillaga um 100 milljónir króna til sérstaks átaks á árinu 2006 til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra einstaklinga með litla menntun, jafnframt því að bæta stöðu erlends vinnuafls í íslensku samfélagi. Framlag til Húsafriðarsjóðs hækkar um 126 milljónir vegna tiltekinna tímabundinna verkefna, framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækkar um 27 milljónir, m.a. vegna fjölgunar umsókna.

Framlag til félagsmálaráðuneytis hækkar um 470 milljónir, aðallega vegna 400 milljóna króna viðbótarheimildar Atvinnuleysistryggingasjóðs til greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

Fjárheimild heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis eykst um Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin 155,4 milljónir. Þetta tengist m.a. því að fallið hefur verið frá áformum um hætta greiðslu uppbótar til elli- og örorkulífeyrisþega til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar.

Þá fá sjúkrahús fé til að fjölga stöðugildum unglækna vegna áhrifa af samþykkt tilskipunar EB um breytingar á vinnutíma lækna í starfsnámi.

Útgjöld dómsmálaráðuneytisins aukast um 79,8 milljónir. Munar þar mestu um 50 milljóna tímabundið framlag til framkvæmda við stækkun og endurbætur fangelsa. Fyrirhugað er í fyrsta áfanga að gera breytingar á fangelsum á Akureyri og á Kvíabryggju. Á Kvíabryggju er ætlunin að fjölga um átta fangarými og er kostnaður við þær framkvæmdir áætlaður 27 milljónir en þær verða fjármagnaðar með ónotuðum fjárheimildum frá fyrri árum. Á Akureyri er ætlunin að fjölgun fangaklefum um tvo og skapa möguleika á langtímavistun fanga. Auk þess er talið nauðsynlegt að gera breytingar á húsnæði lögreglustöðvarinnar.

Útgjöld tveggja ráðuneyta lækka frá fjárlagafrumvarpinu, samkvæmt breytingartillögunum, fjármálaráðuneytis um 50 milljónir og utanríkisráðuneytis um 2 milljónir.

Tillögur meirihluta fjárlaganefndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert