Atkvæði greidd um fjárlagafrumvarpið

Greidd voru atkvæði um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í dag.
Greidd voru atkvæði um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Atkvæðagreiðsla um einstakar greinar fjárlagafrumvarpsins hófst á Alþingi á 11. tímanum í dag en önnur umræða um frumvarpið stóð fram á nótt. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýndu frumvarpið og sögðu það sýna skort á aðhaldi en formaður fjárlaganefndar sagði að frumvarpið endurspeglaði sterkari stöðu ríkissjóðs en dæmi væru um áður. og tekjuafgangur væri tæp 2% af landsframleiðslu sem væri meira en flestar Evrópuþjóðir gætu stært sig af. Þá yrðu skuldir ríkissjóðs innan við 10% af landsframleiðslu í lok næsta árs.

Helgi Hjörvar, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, sagði við upphaf atkvæðagreiðslunnar, að því miður væri ekki ástæða til þess að ætla að fjárlögin gangi betur eftir en undanfarin ár en viðvarandi skekkja hefði lengi verið milli frumvarpsins og niðurstöðunnar.

Helgi sagði, að einkenni fjárlagafrumvarpsins væri skortur á aðhaldi og skattalækkanir til hátekjufólksins í samfélaginu. Sagði Helgi að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefði með aðstoð sjálfstæðismanna á undanförnum kjörtímabilum aukið skattbyrði hinna lægst launuðu um heil mánaðarlaun en á sama tíma létt skattbyrði af hátekjufólki um heil mánaðarlaun. Þetta skekkti þá samstöðu og einhug, sem einkennt hefði íslenskt samfélag.

Þá sagði Helgi, að útgjaldaþenslan sýndi að ríkisstjórnin hefði setið allt of lengi við völd. Þegar þenslunni lyki þyrfti ný ríkisstjórn jafnaðarmanna að taka á hinum mikla útgjaldavanda og misskiptingu sem myndast hefði.

Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, sagði að staða ríkissjóðs væri sterkari nú en dæmi væru um áður. Tekjuafgangur væri 19,6% eða rétt innan við 2% af landsframleiðslu sem væri meiri afgangur en flestar Evrópuþjóðir gætu státað sig. Þá yrðu skuldir ríkissjóðs innan við 10% af landsframleiðslu í lok næsta árs.

Magnús sagði, að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hefðu náð miklum árangri í ríkisfjármálum og það skipti miklu máli að áframhald verði á því. Málflutningur stjórnarandstöðunnar, um niðurskurð til félagsmála og velferðarmála, væri marklaus því verið væri að auka framlög til félagsmála, velferðarmála, menntamála og annarra slíkra mála. Hvatti Magnús þjóðina til að taka ekki mark á klisjukenndum og ósönnum málflutningi heldur horfa til þess sem gert hefði verið og fælist í frumvarpinu sem miðaði allt að því að bæta lífsgæði þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert