Skjálfti í þingsalnum

Fjárlagafrumvarpinu hefur verið vísað til þriðju umræðu á Alþingi.
Fjárlagafrumvarpinu hefur verið vísað til þriðju umræðu á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Aðeins hvessti í þingsal Alþingis um hádegisbil þegar greiða átti atkvæði um það hvort vísa ætti fjárlagafrumvarpinu til þriðju umræðu. Sagði Sólveig Pétursdóttir, forseti þingsins, það greinilegt að bæði væru skjálfti og órói í þingsalnum.

Atkvæðagreiðsla fór í morgun fram um einstakar greinar fjárlagafrumvarpsins og eins og jafnan voru tillögur stjórnarmeirihlutans allar samþykktar og tillögur stjórnarandstöðunnar felldar.

Þegar greiða átti atkvæði um það hvort vísa ætti frumvarpinu áfram til 3. umræðu gerði Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, grein fyrir atkvæði sínu. Nokkrir þingmenn kölluðu fram í fyrir ráðherranum og áréttaði Sólveig þá að þingmenn ættu að fá hljóð til að flytja ræður. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, gerði í kjölfarið grein fyrir sínu atkvæði og þá kallaði Árni fram í fyrir honum. Steingrímur tók því ekki þegjandi, vísaði til umvöndunar þingforsetans og sagði m.a. að fjármálaráðherra ætti að skammast sín.

Eftir þessa snerru samþykkti þingheimur með 50 samhljóða atkvæðum að vísa fjárlagafrumvarpinu til þriðju umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert